
Lögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson, sem stefnt var af Benedikti Bogasyni hæstaréttardómara fyrir meiðyrði, lagði fram greinargerð og aðilaskýrslu í morgun fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Benedikt stefnir Jóni Steinari fyrir að nota orðið „dómsmorð“ í bók sinni Með lognið í fangið, hvar hann fjallar um störf Hæstarétts í máli Baldri Guðlaugssonar, sem dæmdur var fyrir innherjasvik árið 2012, en Baldur og Jón Steinar eru gamlir vinir.
Í greinargerð slíkri kemur fram rökstuðningur stefnda fyrir málsvörn sinni. Jón Steinar nefnir til dæmis að í stefnu Benedikts sé einungis birtur hluti tilvitnunar Jóns Steinars um dómsmorð í bókinni, en „mikilvægum fyrirvara“ sé sleppt. Þá gerir Jón Steinar einnig athugasemd við það, að hugtakið dómsmorð hafi áður verið notað um störf Hæstarétts án athugasemda, til dæmis í Al Thani málinu, þegar Sigurður Einarsson, fyrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagði að „dómsmorð hafi verið framið í Hæstarétti“. Þá hafi orðið einnig verið notað í fjölmiðlum.
Þá segir Jón Steinar að sér hafi verið stefnt aðeins fjórum dögum eftir að bók hans kom út og því hafi ekki gefist kostur á að „ná samkomulagi um málssóknina utan réttar, leiðrétta ummælin eða draga þau til baka. “
Jón Steinar byggir einnig á því að rúmt tjáningarfrelsi gildi um dóma Hæstaréttar í sakamálum eftir Hrunið og vísar þar til fordæmis. Þá segir hann einnig að opinberar umræður hafi verið afar einhliða í kjölfar Hrunsins, hvar hallaði á sakborninga. Jafnvel svo mikið, að dómarar Hæstarétts hafi einfaldlega látið undir þrýstingi almennings, af ótta við afleiðingarnar.
Þá telur Jón Steinar að sem fyrrverandi Hæstaréttardómari, eigi hann að njóta „sérstaklega rúms tjáningarfrelsis um öll málefni dómstólsins.“
Greinargerðina má sjá hér: greinargerð
Aðilaskýrsluna má lesa hér: aðilaskýrsla
Í greinargerðinni telur Jón til helstu skoðanir sínar á máli Baldurs sem eru í stuttu máli eftirfarandi:
„1. Álagið á Hæstarétti Íslands hafi verið of mikið eftir efnahagshrunið árið
2008. Það hafi leitt til óvandaðra dómsniðurstaðna, sem væri sérstaklega
gagnrýnivert í sakamálum (bls. 25-27).
2. Hæstiréttur hafi ekki staðist þrýsting um að sakfella í máli Baldurs
Guðlaugssonar, fyrsta efnahagsbrotamálinu sem kom til kasta
dómstólsins eftir hrun (bls. 56-57).
3. Að dómsformaður, Viðar Már Matthíasson, hafi verið vanhæfur til að
taka þátt í meðferð málsins vegna hlutabréfaeignar í Landsbankanum
(bls. 83-86).
4. Að upplýsingar þær um stöðu Landsbankans sem ákærði bjó yfir hafi
ekki verið innherjaupplýsingar skv. 120. gr. laga um verðbréfaviðskipti
nr. 108/2007 (bls. 64 og 66).
5. Að Hæstiréttur Íslands hefði ekki tekið afstöðu til þess hvaða þýðingu
það hefði að ákærði væri gefið að sök að hafa misnotað upplýsingar um
miðjan september 2008, sem hann fékk í júlí og ágúst. Landsbankanum
hafi verið skylt að birta upplýsingarnar „eins fljótt og auðið er“ skv. 122.
gr. vvl. og FME skylt að hafa með því eftirlit. Sakfelling ákærða hafi
verið afleiðing þeirrar vanrækslu, þar sem að við birtingu hætta
upplýsingar að vera innherjaupplýsingar (bls. 64).
6. Að ákærða Baldri hafi þannig „óbeint“ verið refsað fyrir „lögbrot
íslenska ríkisins“ (bls. 69).
7. Að ákærði Baldur hafi verið dæmdur fyrir annað en það sem hann var
ákærður fyrir. Hann hafi verið ákærður fyrir að vera „annar innherji“
skv. 3. tl. 121. gr. vvl., en sakfelldur fyrir að vera „tímabundinn innherji“.
Honum hafi aldrei verið gefinn kostur á því að verjast því að vera
tímabundinn innherji (bls. 71-73). Úrlausn Hæstaréttar fæli í sér
„alvarlegt brot á réttindum ákærða“ og væri með öllu óheimil skv. 180.
gr. sml. nr. 88/2008.
8. Að samantekt um efni dómsins hafi verið breytt eftir birtingu dómsins og
staðhæfing um að ákærði hefði verið „tímabundinn innherji“ hefði verið
breytt (bls. 79-81). Þetta væri óvenjulegt og gæfi enn frekara tilefni til
efasemda um réttmæti niðurstöðunnar.
9. Brotið hafi verið gegn Ne bis in Idem reglu sakamálaréttarfars, með því
að hefja rannsókn málsins aftur á stjórnsýslustigi, með tilvísun til þess að
ný gögn hefðu borist í málinu (bls. 74). Stefndi vísaði nánar til
umfjöllunar Róberts R. Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu,
sem gagnrýndi að málið hefði verið tekið upp aftur eftir að því hefði
verið lokið á stjórnsýslustigi.“