
Sex sóttu um Embætti landlæknis sem auglýst var laust til umsóknar á liðnu ári. Umsóknarfrestur rann út 4. janúar síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.
Birgir Jakobsson hefur verið landlæknir frá 1. janúar 2015, en Geir Gunnlaugsson var fyrirrennari hans. Birgir lætur af störfum þann 1. apríl vegna aldurs.
Heilbrigðisráðherra skipar í Embætti landlæknis til fimm ára í senn að undangengnu mati sérstakrar nefndar sem starfar á grundvelli 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu um mat hæfni umsækjenda.
Umsækjendur eru þessir:
Alma D. Möller, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala
Arna Guðmundsdóttir, læknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur
Bogi Jónsson, læknir við bæklunardeild Háskólasjúkrahússins í Norður Noregi
Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvardháskólans í Boston
Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins
Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins