Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Brynjar Níelsson, lofaði í gær endurkomu á Facebook í ræðu sinni á jólahlaðborði Sambands ungra Sjálfstæðismanna í gær. „Ég er að vísu ekki búinn að koma því í verk en úr því að ég gaf loforðið verð ég að standa við það,“ segir Brynjar við mbl.is í dag.
Frægt er þegar Brynjar hætti á Facebook í nóvember síðastliðinn vegna heilsufarsástæðna, með vísun í harkaleg og ógeðfellt viðbrögð fólks í ummælakerfum. Segir Brynjar að hann geti ekki bitið í tunguna á sér endalaust:
„Maður hefur svo margt að segja. Svo er þetta einfaldari leið til að tjá sig en að skrifa greinar sem birtast tveimur dögum síðar þegar umræðan er orðin súr. Hlutirnir í dag þurfa að gerast strax.“
Þá segist hann búast við að umræðan verði jafn harkaleg og áður, en það hafi verið furðu auðvelt að vera án Facebook.
„Maður skiptir bara í annan gír og hugsar ekkert meira um það.“
Segist hann búast við að byrja strax í næstu viku, takist honum að endurvekja sinn gamla aðgang:
„Ég þarf sjálfsagt aðstoð við það eins og allt annað.“
Eyjan óskar Brynjari til hamingju með ákvörðunina.