

Meiðslavandræði Kai Havertz hjá Arsenal virðast enn ekki vera yfirstaðin og hefur hnévandamál Þjóðverjans aftur tekið sig upp.
Havertz meiddist á hné í fyrsta leik tímabilsins gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Upphaflega var reiknað með að hann sneri aftur í nóvember og var hann kominn mjög nálægt endurkomu, en bakslag í endurhæfingunni varð til þess að fjarvera hans lengdist verulega.
Þegar loks leit út fyrir að hann væri orðinn heill á ný komu upp ný vandamál í hnéinu. Havertz sneri aftur í leikmannahóp Arsenal í desember í leik gegn Aston Villa og vakti gleði meðal stuðningsmanna þrátt fyrir að hann kæmi ekki við sögu. Hann missti af næstu tveimur deildarleikjum, en kom inn á í bikarleikjum gegn Chelsea og Portsmouth.
Samkvæmt Daily Mail var Havertz langt frá því að vera í fullu leikformi þegar hann var á bekknum gegn Villa og hnéið bólgnaði upp á ný í kjölfarið.
Arsenal hefur nú áhyggjur af langtímaástandi hans og hefur þurft að takmarka leikmínútur hans. Óttast er innan félagsins að ef vandamálið heldur áfram gæti þurft að stýra álagi hans til lengri tíma í stað þess að hafa hann fullkomlega tiltækan í hvern leik.