
Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu, birtir heilsíðu grein í auglýsinga-og myndablaði Moggans, Tímamótum, sem dreift var um jólin. Full ástæða er til að rýna í grein Andrésar því að hún er það eina í blaðinu sem ætla má að lýsi skoðunum og stefnu yfirstjórnar blaðsins sem hann vinnur fyrir.
Andrés er þekktur fyrir áratugalöng störf sín fyrir Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins og einnig Skrímsladeild Morgunblaðsins eftir að blaðið valdi að koma sér upp slíkri starfsemi fyrir nokkrum árum. Í grein sinni gerir Andrés lítið úr öllu sem núverandi ríkisstjórn hefur gert á fyrsta starfsári sínu. Mjög er hann upptekinn af meintri vinnu „spunameistara“ en hann þekkir vel til slíkra starfa á öðrum vettvangi. Hann festir sig í svekkelsisskrifum um „Valkyrjur“, „plan“ og „sleggju“ sem hann virðist láta fara verulega í afar viðkvæmar taugar sínar. Ekki er vikið einu einasta jákvæðu orði að störfum ríkisstjórnarinnar þetta fyrsta valdaár hennar. Allt er einfaldlega ómögulegt. Andrés og samferðamenn hans ættu mögulega að taka það upp sem slagorð þegar minnst er á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. ALLT ÓMÖGULEGT. Það gæti kallast á við vel heppnað slagorð Bónus sem auglýst hefur verið undanfarna mánuði. ALLT ÓDÝRT.
Orðið á götunni er að skrif og framganga talsmanna Sjálfstæðisflokksins og handlangara þeirra, meðal annars Skrímsladeildarmanna, einkennist síðustu mánuðina af mikilli vanlíðan, svekkelsi, öfund og erfiðleikum við að horfast í augu við staðreyndir og nýjan raunveruleika í kjölfar þess að flokkur þeirra missti völdin eftir langa samfellda valdatíð. Þeim virðist fyrirmunað að skilja að fyrri ríkisstjórn var hafnað í kosningum fyrir rúmu ári. Vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar var sett af í lýðræðislegum kosningum með svo afgerandi hætti að flokkur Katrínar þurrkaðist úr af Alþingi, Framsókn missti átta af 13 þingmönnum sínum af þingi, þar á meðal þrjá ráðherra, og Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð, fékk minnsta fylgi sitt í þingkosningum frá upphafi, einungis 19 prósent. Versta útkoma í tæplega 100 ára sögu flokksins. Þetta eru staðreyndirnar sem erfitt er að horfast í augu við fyrir þá sem skortir þroska til að taka mótbyr og átta sig á því að ekki er hægt að vinna allar keppnir eða alla leiki. Stundum er tap staðreynd og þá reynir mikið á þroska.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei áður farið niður fyrir 20 prósenta fylgi í alþingiskosningum. Í síðustu kosningunum áður en Bjarni Benediktsson tók við formennsku hlaut flokkurinn 37 prósenta fylgi og var ótvíræður forystuflokkur þjóðarinnar. Bjarni Benediktsson vék af sviðinu og skilaði flokknum af sér með 19 prósenta fylgi sem er hrun sem nemur nærri helmingi þess fylgis sem flokkurinn hlaut í kosningunum árið 2007, í formannstíð Geirs Haarde.
Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörinn formaður snemma á þessu ári. Margir flokksmenn væntu þess að nýr formaður gæti endurreist fylgi flokksins en reynslan, enn sem komið er, sýnir áframhaldandi fylgistap. Sjálfstæðisflokkurinn er samkvæmt öllum skoðanakönnunum að festast í um 15 prósenta fylgi á meðan Samfylkingin mælist með um 30 prósent og er orðinn ótvíræður forystuflokkur íslenskra stjórnmála – alla vega nú um stundir. Þetta gerist þrátt fyrir skefjalausan áróður stjórnarandstöðunnar og fylgifiska hennar gegn Samfylkingunni og ríkisstjórn formanns hans.
Ekki er ástandið í Framsóknarflokknum betra. Fylgið hefur hrunið og flokkurinn bíður eftir að skipta um formann og finna sér nýjan veruleika. Flokkurinn er kominn niður undir fimm prósent samkvæmt skoðanakönnunum og spurning hvort Framsóknar bíða sömu örlög og Vinstri grænna og Pírata sem féllu út af þingi í síðustu kosningum. Á sama tíma eykst fylgi Miðflokksins jafnt og þétt. Hann er nú orðinn næst stærsti flokkur landsins.
Orðið á götunni er að störf Skrímsladeildarinnar skili engum árangri. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur ekki lengur trausts og trúverðugleiki Morgunblaðsins er fokinn út í veður og vind. Hið merka blað sem Matthías Johannessen byggði upp af eljusemi og visku er ekki lengur til. Þó að nafnið sé óbreytt er innihaldið óþekkjanlegt og því fer sem fer.
Andrés og félagar geta mögulega stytt sér leið með því að taka upp safnheiti fyrir það sem þeir kunna að segja um ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur: ALLT ÓMÖGULEGT. Hver veit, ef sú klisja er þulin nógu oft gæti þjóðin hugsanlega farið að trúa henni.