

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, spyr hvort það sé ekki tilefni til þess að Miðflokkurinn gefi frá sér yfirlýsingu vegna fjölda myndbanda merktum flokknum þar sem gengið er mjög langt í hreinum rasisma. Meðal annars hatri gegn innflytjendum og múslimum.
Lilja ræddi þetta í umræðum á samfélagsmiðlum við Einar Jóhannes Guðnason, varaþingmann Miðflokksins, og spurði hann hvort það væri ekki tilefni til að bregðast við. En tilefnið var nýlegt myndband sem Egill Helgason, Mugison og fleiri hafa gagnrýnt harkalega bæði vegna boðskapsins og stolins höfundarréttarvarins efnis. Þetta myndband og fleiri eru merkt stuðningsmönnum Miðflokksins en forysta flokksins hefur ekki gagnrýnt efni þeirra.
Lilja bendir á að það séu að ganga mun grófari og ljótari myndbönd, hreint kynþáttahatur, sem eru merkt flokknum.
„Það hafa komið fram ótrúlega mörg myndbönd sem eru í svipuðum stíl og þetta myndband sem um ræðir eða myndbönd sem ganga mjög langt í hreinum rasisma og enda á að merkja sig Miðflokknum,“ segir hún. „Ég er alls ekki að segja að þetta sé frá Miðflokknum komið en ég hef verið að velta því fyrir mér hvort það sé ekki tilefni til þess að það komi yfirlýsing frá Miðflokknum að þetta sé ekki frá ykkur komið. Því sum myndböndin hafa verið mjög slæm.“
Hugsanlega séu sum myndböndin gerð með gervigreind.
„Sum myndböndin eru líka svo illa gerð að ég geri hreinlega ráð fyrir því að þetta séu eintómir gervigreindaraðgangar. Ég ætla alla veganna að vona það ykkar vegna að þetta sé frekar gervigreind heldur en ungir einstaklingar sem eru að reyna að ná athygli ykkar með rasisma. En þetta verður að fordæma. Öll myndböndin. Ekki bara eitt,“ segir hún.
Einar Jóhannes hafnar þessu og segir það furðulega kröfu að Miðflokkurinn eigi að vera „lögga á samfélagsmiðlum.“
En Lilja nefnir að það virðist sem um eins konar átak að ræða. Myndböndin séu mjög mörg og öll með hvatningu til að styðja Miðflokkinn.
„Það virðist vera sérstakt markaðsátak og þess vegna nefni ég þetta að það væri í alvöru tilefni til þess að tala um að þetta sé ekki frá ykkur komið. Nema kannski að þetta henti ykkur sérstaklega vel og þið viljið að þetta haldi áfram. En myndböndin sem ég hef séð sem eru svona eru talin í tugum,“ segir hún.
Í einu slíku myndbandi má sjá mann gangandi um götur Reykjavíkur umkringdur konum í búrkum og textann: „Af hverju kaus ég ekki Miðflokkinn?“.


