

Tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, er ósáttur með notkun á höfundaverki hans í myndbandi til stuðnings Miðflokknum.
Myndbandið er í anda bandarísku MAGA-hreyfingarinnar. Þar má finna svipmyndir frá Íslandi á eftirstríðsárunum og kallað er eftir því að við „gerum Ísland frábært aftur“ með því að kjósa Miðflokkinn. Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason vakti athygli á myndbandinu í gær.
Sjá einnig: Egill tætir í sig myndband Miðflokksmanna – „Í Kópavogi var rekið það sem kallaðist Fávitahæli“
Fylgjendur Egils bentu á það í athugasemdum að í téðu myndbandi sé notað lag eftir Mugison, Stingum af, og nú hefur tónlistarmaðurinn opinberað að það var gert í hans óþökk.
„Þarna er verið að nota lag og texta eftir mig án þess að fá til þess leyfi. Ég hef ekki hugmynd um hver réttur minn er – er þetta ekki ólöglegt? STEF er þetta eitthvað sem þið takið að ykkur að rannsaka? Allavega finnst mér Miðflokkurinn vera að misnota lagið mitt – og að mínu mati siðlaust.“
DV hafði uppi á myndbandinu á TikTok en þar er því deilt af notanda sem kallar sig make.iceland.great.again. Notandinn kemur ekki fram undir nafni og ekki hægt að fullyrða hvort að viðkomandi tengist Miðflokknum með beinum hætti eða hvort þarna sé hreinlega bara um stuðningsmann flokksins að ræða. Notandinn hefur deilt þó nokkrum myndböndum og þar er lýst stuðningi við Miðflokkinn, kallað eftir því að Ísland verði frábært aftur og að múslimum verði „sparkað“ úr landi.
@make.iceland.great.again Gerum Ísland Frábært Aftur! #viral #fyrirþig #iceland #ísland #fyrirsiðunaþina ♬ original sound – 🇮🇸
Uppfært: 13:20
Miðflokkurinn hefur birt yfirlýsingu vegna myndbandsins og segist ekkert hafa með það að gera og enga hugmynd um hvaðan það komi. Flokkurinn tekur þó fram að myndefnið og lagavalið séu falleg.
Eins er rétt að taka fram að make.iceland.great.again hefur frá því að fréttin birtist í morgun breytt stillingum á aðgangi sínum og geta nú aðeins fylgjendur séð myndbandið sem fjallað er um hér að ofan.