

„Vér lifum óhugnanlega tíma; heimurinn er gamall og spilltur, stjórnmálin gerspillt. Börn virða ekki öldungana lengur. Allir vilja skera sig úr og skrifa bækur.“
Upp úr síðustu aldamótum var farið að dreifa þessari tilvitnun um veraldarvefinn og hún eignuð kunnasta mælskumanni fornaldar, Markúsi Túllíusi Cíceró. Þetta þótti mörgum snjallt og eiga erindi við samtíma okkar; kynslóðaátök væru engin nýlunda sem og óttinn við að öllu fari aftur. Ýmsir samtímamanna okkar, haldnir einfeldningslegri framfaratrú, sáu í þessum orðum tækifæri til draga dár að menningarlegri bölsýni enda sé mannsandinn á svo miklu hærra stigi nú en hann var í klassískri fornöld.
Þeir sem þekkja þó eitthvað til æviþátta Cícerós vita að trauðla hefði hann nokkru sinni látið sér þessi orð um munn fara. Hann dáði börn sín (fram úr hófi) líkt og menn gera almennt í samfélögum þar sem fæðingartíðni er lág (eins og hún sannarlega var orðinn meðal rómverskra borgara á hans dögum). En þessi tilvitnun hefur raunar birst víða í bókum og jafnan var hún sögð ættuð frá Babýlóníu hinni fornu. Sannleikurinn er aftur á móti sá að þessi orð eru uppspuni og munu fyrst hafa birst í bandarísku hjólreiðatímariti, Basset‘s Scrap Book, árið 1908. Þar segir að textann sé að finna á leirtöflu Assýríumanns nokkurs sem varðveitt sé í Konstantínópel. Hann þótti svo smellinn að hver át hann upp eftir öðrum um aldarskeið.
En burtséð frá tilvitnuninni sjálfri þá er gagnlegt að spyrja þeirrar spurningar hvort við séum á hærra vitsmunastigi en fornaldarmenn. Því verður afdráttarlaust svarað játandi sé litið til vísinda og tækni; lyfja, lækninga, geimferða og snjallsíma. En það er mikill misskilningur að halda því fram að við séum gáfaðri en fyrri tíðar menn einfaldlega vegna þessi að tækni og vísindum hefur undið fram. Gáfur fæstra nútímamanna jafnast á við gáfur Cícerós og þá eru fremstu menntamenn og aðrir hugsuðir samtímans ekki undanskildir.
Ég gat þess að framan að Cíceró hefði verið mælskusnillingur en hann telst líka einn fremsti hugsuður vestrænnar menningar. Dr. Jón Gíslason, fornfræðingur og skólastjóri Verzlunarskólans, orðaði það svo að Cíceró hefði öðrum fremur unnið það þrekvirki „að hefja hið latneska ritmál á það stig fullkomnunar, að síðan hefur sú tunga verið talin einn hinn fullkomnasti búningur sem mannsandinn hefur sniðið hugsun sinni“. Og andagiftin var slík að enn er til hans vitnað á okkar dögum — 2078 árum eftir andlátið. Ætli þeir séu margir samtímamenn okkar sem muni hafa slík áhrif næstu aldir og árþúsund? Þýski blaðamaðurinn og rithöfundurinn, Matthias Heine, velti þeirri spurningu upp í grein í Welt á dögunum og gerði meðal annars að umtalsefni ummælin sem ranglega voru höfð eftir Cíceró. Hefði hann látið þau falla mætti líkja því við spádómsgáfu sé litið til þeirrar hnignunar sem í vændum var. Varla hefði nokkur viðlíka andi komið fram á Vesturlöndum fyrr en tólf hundruð árum síðar með Tómasi Aquinas eða við þyrftum mögulega að fara enn lengra fram, um fimmtán hundruð ár — til Erasmusar frá Rotterdam.
Hnignunin var samt ekki augljós á þeirri stundu er hermenn Markúsar Antóníusar hálshjuggu Cíceró og sundurlimuðu lík hans árið 43 fyrir Kristburð. Þegar borgarastyrjaldirnar voru um garð gengnar upphófst raunar blómaskeið latneskra bókmennta en er fram liðu stundir varð þó menntahrun í vestanverðu Rómaveldi uns ólæsi
var orðið nær algert við lok fornaldar. Mannkynssagan er nefnilega ekki saga órofinna vitsmunalegra framfara. Við fall Vestrómverska ríkisins hurfu bækur nær alveg — en menning Rómverja hinna fornu var að stórum hluta bókmenning, efnamenn héldu bókasöfn og bækur voru stöðugt afritaðar.
Ólæsar kynslóðir sem á eftir fóru gátu ekki hugsað kerfisbundið og afleiðingin varð pólitísk upplausn í vestanverði álfunni. Hér í okkar heimshluta náðu menn ekki vopnum sínum fyrr en á síðmiðöldum og endurreisnaröld þegar hin klassíska fornmenning var enduruppgötvuð.
Heine gerir að umtalsefni í grein sinni að menningarleg hnignun eigi sér jafnan ekki stað í einni svipan við árás óþjóða. Hrörnunin sé venjulega hægfara og greindarskerðingin frá einni kynslóð til annarrar yfirleitt nógu lítil til að menn hunsi merkin, afneiti hnignuninni. En Heine fullyrðir að slík afturför eigi sér stað í okkar samtíma og nefnir sem dæmi að þegar hann var sjálfur við menntaskólanám á áttunda áratugnum hefði verið dregið verulega úr kröfum til nemenda. Hæfni stúdenta til æðra náms hefði skerst svo mjög í kjölfarið að þegar komið var fram á níunda og tíunda áratuginn hefðu háskólarnir séð sig knúna til að einfalda námsefni. Hann nefnir ýmis dæmi um hvert þessi þróun hefur leitt okkur en hún sé síður en svo bundin við Þýskaland. Breskir háskólar bjóði nú upp á námskeið til að kenna nemendum einbeitni svo þeir geti lesið langar skáldsögur. Þá hefði vinur hans sem kennir við úrvalsháskóla í Englandi látið svo um mælt (með nokkurri kerskni þó) að spurningin væri ekki lengur hvað menn læsu í háskólunum heldur hvort þeir læsu yfir höfuð.
Sagnfræðingurinn Michael Sommer komst svo að orði í viðtali við Welt nýverið að upp undir fjórðungur stúdenta ætti ekkert erindi í háskóla en það væri samt engin nýlunda. Um fimmtungur teldust aftur á móti afbragðsnemendur. En svo væri það miðhópurinn — upp undir sextíu af hundraði — um þann hóp hefði verið hægt að segja hér áður fyrr að þeir hefðu getað haft mikið gagn af náminu þrátt fyrir að vera ekki afburðarstúdentar. Þennan hóp hefði lengst af verið hægt að mennta svo gagn væri að en nú væri hann orðinn til vandræða — réði ekki við lesefnið, skorti þá lestrarfærni sem til þyrfti.
Sögur af þessu tagi úr starfi kennarans eru ekki einar og sér fyrirboðar um hrun siðmenningar — en þær eru skýr merki um menningarlega hnignun. Heine segir okkur samt ekki taka þessi merki alvarlega því tækniframfarirnar haldi áfram. Endalok fornaldar kenni okkur engu að síður að hnignun lestrarkunnáttu bitni á verkþekkingu. Menn glötuðu ekki aðeins hæfileikanum til að skrifa og hugsa eins og Cíceró og Markús Árelíus heldur gátu þeir ekki lengur lagt vatnsveitur og vegi. Á sama tíma hrörnaði læknisfræðinni uns hún varð að eintómum hindurvitnum og kukli. Fyrst hurfu heimspekingarnir og skáldin, þá verkfræðingarnir og læknarnir.
Heine líkir siðmenningunni við líkama í grein sinni, handleggir og fætur missi þrótt ef heili og hjarta verða óstarfhæf. Hann vísar til sérfræðinga sem telja hnignandi árangur þýskra nemenda í raunvísindum og tæknigreinum stafa að hluta til af skorti á hæfni til að geta lesið af einbeitingu.
En hvernig fáum við stöðvað þessa hnignun? Hvernig er hægt að gera þennan miðhóp (sextíu prósentin) sem Sommer hafði nefnt hæfari til æðra náms? Heine segir að til þess þurfi
að rækta eina til tvær kynslóðir manna sem taki foreldum sínum, öfum og ömmum fram í gáfum. Fyrsta skrefið séu nýjar lestrarbækur og stóraukin lestrarþjálfun í skólum, þar sem teknar verði fyrir fjölbreytilegar textagerðir, allt frá leiðbeiningarbæklingum hvers konar, leigusamningum og dagblaðagreinum til ljóða, heimspekiþanka, stuttra vísindagreina og sögulegra gagna aftan úr fornöld. Semja þurfi nýjar tegundir lestrarbóka fyrir unga námsmenn þar sem alls kyns lesmál ber fyrir.
Cíceró þyrfti samt ekki endilega að vera á lesefnalista yngri nemenda en slíkt gæfi þó fagurt fyrirheit, því það hefur að minnsta kosti hent í þrígang í evrópskri hugmyndasögu að stórkostleg framfaraskeið hefjist með enduruppgötvun texta úr klassískri fornöld. Þeir sem væru þjálfaðir í slíkum lestri létu heldur ekki blekkjast af uppdiktuðum tilvitnunum til Cícerós.