
Á síðustu metrum haustþings er fjallað um breytingar sem til hefur staðið að gera á álagningu gjalda á bifreiðar um margra missera skeið.
Grundvallarhugmyndin að baki þeim breytingum byggir á að framlag bíleigenda í sameiginlega sjóði sé í samræmi við notkun bílsins og ekki sé mismunað eftir tegund þeirrar orku sem bíllinn gengur fyrir. Þess vegna er gjaldið nefnt kílómetragjald.
Frumvarpið sem bíður þess að verða að lögum er ekki uppfinding núráðandi ríkisstjórnar, heldur þeirrar sem áður sat. Engu að síður virðist sem þeim sem sátu í þeirri ríkisstjórn fyrirmunað að kannast við eigið afkvæmi og hafa séð frumvarpinu allt til foráttu.
Það hefur ekki farið fram hjá Svarthöfða að það eru ekki bara stjórnmálamenn sem hafa fjallað um frumvarpið. Með aðstoð Morgunblaðsins hefur forstjóri einnar stærstu bílaleigu landsins, með höfuðstöðvar við Eyjafjörð, ítrekað kvartað undan þessu fyrirhugaða fyrirkomulagi. Afleiðingar laganna verði þær að rekstur leigunnar verði ekki eins arðbær og áður. Grípa þurfi til aðgerða á borð við að draga úr fjárhagsstuðningi leigunnar við íþróttafélög svo dæmi sé nefnt.
Svarthöfði sér hins vegar ekki betur en að bílaleigan sem forstjórinn fer fyrir sé í ágætlega arðbærum rekstri. Nægir að leita fanga í frétt Morgunblaðsins á síðasta ári þar sem greint er frá því að hagnaður hennar hafi verið einn milljarður króna á árinu 2023. Virðist sem það ár hafi ekki verið nein undantekning í þeim efnum því hagnaðurinn árið 2022 er sagður hafa verið 1,8 milljarðar króna.
Að mati Svarthöfða ætti það því að vera hreinasti óþarfi að skera niður umsvif félagsins í tilefni af upptöku kílómetragjalds.
Finnist forstjóranum arðsemi rekstrarins ekki nægjanleg er því fátt annað að gera en að hækka leiguverð á bílum. Allar bílaleigur landsins búa við sömu aðstöðu og ættu því að fagna því að hærra verð fáist fyrir þjónustu þeirra. Og ekki þarf að óttast samkeppni frá útlöndum.
Eftir því sem Svarthöfði best veit er afar fátítt að erlendir ferðamenn sem heimsækja landið leigi sér bíl í útlöndum til að aka um íslenska vegi.