fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Fréttir

Verðkönnun ASÍ á algengum jólavörum: Afar mikill munur á ýmsum verðum milli verslanna og hvaða pakkningar eru valdar

Eyjan
Miðvikudaginn 17. desember 2025 15:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á algengum jólavörum í átta verslunum í síðustu viku en áður hafði eftirlitið birt verðkönnun á jólakjöti.

Í niðurstöðum eftirlitsins sem sendar voru á fjölmiðla kemur fram að verðmunur milli vara og verslana getur verið mjög breytilegur. Þó verðmunur kunni að vera lítill í krónum á smáum einingum, getur oft verið um töluverðan hlutfallslegan mun að ræða og oft um miklar fjárhæðir að ræða þegar gerð eru stór innkaup fyrir jólin. Verð voru könnuð í Prís, Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup, Fjarðarkaup, Kjörbúðinni og Extra.

Samkvæmt mælingum verðlagseftirlitsins í desember mælist verðlag lægst í Prís. Er þá miðað við meðalverðmun á vörum sem fáanlegar eru í fleiri en einni verslun. Verðlag í Bónus og Krónunni liggur litlu ofar, en að jafnaði er verð í þeim verslunum um 2-3% hærra en þar sem varan finnst á lægsta verðinu.

Vinsælar vörur eru ekki endilega fáanlegar í öllum verslunum og verðbreytingar geta verið tíðar á þessum árstíma. Til dæmis hófst sala á hátíðarís frá Emmessís í Krónunni á verðinu 1.549 kr. í nóvemberbyrjun, en hefur síðan lækkað í 1.180 kr. eða um tæpan fjórðung. Einnig er algengt að munur sé á stærðum pakkninga bæði innan og milli verslana og því getur verið gagnlegt að gera samanburð á kíló- og lítraverði ætli neytendur sér að gera hagkvæm innkaup um jólin. Neytendum er því bent á að hægt er að nota Nappið til samanburðar eða vöruleit á Verdlagseftirlit.is þar sem öll gögn og nýjustu verð eru aðgengileg.

Verð á völdum hátíðarvörum má sjá í meðfylgjandi töflu

Samanburður getur borgað sig

Afar mikill munur getur verið á verði eftir því hvaða verslun og hvaða pakkning er valin. Hálfs lítra Pepsi í plasti kostaði til dæmis meira í Hagkaup (279 kr.) heldur en tveggja lítra Pepsi í Prís (259 kr.). Jafnvel sami 1 kg. kassinn af Nóa konfekti í lausu kostaði 1.100 kr. minna í Prís (5.399 kr.) en í Hagkaup (6.499 kr.).

Mandarínur í lausu fengust á 485 kr. kílóið í Prís, en kílóverð á klementínum var frá 611 kr. í Krónunni upp í 699 kr. í Hagkaup.

Lægsta kílóverð á laufabrauði var 2.653 kr. á ósteiktu laufabrauði frá Ömmubakstri í Prís. Ósteikt laufabrauð frá Ömmubakstri var ódýrara en ósteikt laufabrauð frá Kristjáns bakaríi í öllum fjórum verslunum þar sem bæði fengust þ.e. í Prís, Bónus, Krónunni og Hagkaup.

Steikt laufabrauð frá Ömmubakstri var einnig ódýrara en steikt laufabrauð frá Kristjáns bakaríi í öllum verslunum þar sem bæði fengust þ.e. í Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup og Fjarðarkaup. Var munurinn á Ömmubaksturs og Kristjáns steiktu laufabrauði allt frá 7% í Hagkaup upp í 18% í Fjarðarkaup þegar kílóverð eru borin saman.

Vegan laufabrauð frá Ömmubakstri var ódýrast í Bónus, en kílóverðið á því þar (7.539 kr.) var 70% hærra en á ódýrasta steikta laufabrauðinu, sem var Ódýrt laufabrauð í Krónunni (4.410 kr./kg).

Fjarðarkaup buðu upp á lægsta kílóverð á Lindu konfekti, en 900 gr. kassi kostaði 3.998 kr. þar. Kassinn kostaði 4.289 kr. í Bónus en 4.999 kr. í Hagkaup. Kílóverðið á Lindu konfekti var nokkru lægra en á Nóa konfekti, sem var lægst 5.399 kr./kg í Prís fyrir 1kg af Nóa konfekti í lausu.

Kílóverð á 900gr kassa frá Lindu var lægra en kílóverð 1 kg. Nóa konfektkassans í Prís í öllum verslunum nema Hagkaup, þar sem það var 5.554kr.

Hæsta kílóverð á Nóa konfekti í Bónus var á 135 gr. kassa, 14.995 kr./kg. Hæsta kílóverð í Bónus á Lindu konfekti var aftur á móti á 220 gr. kassa, 8.172 kr./kg. Verðbil á konfekti getur því verið sérlega breitt eftir því hvaða kassi er keyptur og í hvaða verslun.

Nýjasta samanburð á kílóverði konfekts og á öðrum vörum má finna á heimasíðu verðlagseftirlitsins. Þar má líka sjá að 900 gr. af Quality Street molum kostaði frá 1.799 kr. í Prís upp í 2.299 kr. í Nettó.

Í bakstur og matreiðsluna

Ódýrasta smjörið fæst í Prís, 798 kr. fyrir 500 gr. af smjöri sem jafnframt var lægsta fáanlega kílóverð á smjöri. Verð á smjöri í Kjörbúðinni og Extra var einungis krónu dýrara. Í Bónus og Fjarðarkaupum kostaði sama eining 819 kr. og verðið í Krónunni var krónu dýrara, 820 kr. Smjörið var nokkuð dýrara í Hagkaupum, á 909 kr.

Rjóminn er einnig ódýrastur í Prís þar sem 500 ml. af 36% rjóma fæst á 749 kr. Verðið í Bónus (768 kr.) og Krónunni (769 kr.) liggur litlu ofar. Neytendum er þó bent á að hægt er að finna lægra lítraverð á rjóma í eins lítra fernu og getur munað um 100 krónum á lítrann á ódýrasta verði. Eins líters rjómi kostar 1.389 krónur í Prís borið saman við 1.395 krónur í Bónus og 1.396 kr. í Krónunni.

Suðusúkkulaði í baksturinn var einnig á lægsta verðinu í Prís ef borið er saman verð á Konsúm suðusúkkulaði frá Nóa-Síríus (300 gr.) og Lindu suðusúkkulaði (200 gr.). Lægsta kílóverðið á suðusúkkulaði er hins vegar að finna í Bónus, á Bónus suðusúkkulaði (2.330 kr.) sem er 5 krónum ódýrara en Lindu suðusúkkulaðið í Prís (2.335 kr.)

Jólasíldin ódýrust á tilboði í Nettó

Jólasíldin frá ORA var ódýrust í Nettó (899 kr.) þegar Verðlagseftirlitið fór á vettvang. Vert er að taka fram að síldin var auglýst á tilboði í Nettó þegar verðtaka fór fram en almennt listaverð er 1.099 kr. Alls munaði fjögur hundruð krónum á lægsta og hæsta verði en jólasíldin var dýrust í Kjörbúðinni og Extra, á 1.299 kr. Einungis munaði krónu á á verðum í Bónus (998 kr.) og Krónunni (999 kr.).

ORA hátíðarsíld var einnig ódýrust í Nettó (742 kr.) þar sem hún var á tilboði en þar á eftir röðuðu sér Krónan (820 kr.), Hagkaup (949 kr.), og Fjarðarkaup (1.058 kr.). Dýrust var hátíðarsíldin í Kjörbúðinni á 1.099 kr. Marineruð síld frá ORA var ódýrust í Krónunni (598 kr.) en fyrir þá sem vilja erlenda síld mátti einnig finna síld frá Klädesholmen í nokkrum verslunum. Lauksíldin frá Klädesholmen var ódýrust í Fjarðarkaupum og kostaði 412 kr.

Verðsamanburður getur verið vandmeðfarinn. Marineruð ORA síld í 590gr krukku kostaði 829 kr. í Bónus en Gestus marineruð síld í 600 gr. krukku kostaði 699 kr. í Krónunni. Munurinn er 19%, en munurinn á kílóverði varanna tveggja er 21%. Hins vegar er þurrvigt síldarinnar 300 gr. hjá ORA, en 250 gr. hjá Gestus. Ef bara sú vigt er skoðuð er kílóverð síldarinnar lægra á ORA síldinni í Bónus, 2.763 kr./kg á móti 2.796 kr./kg á Gestus-síldinni í Krónunni.

Meðlætið

Nokkuð lítill verðmunur var á grænum og gulum baunum frá ORA, 420 gr., þegar horft er á krónutölumun milli verslana. Hlutfallslegur munur gat þó numið allt að fjórðungi milli lægsta og hæsta verðs. Lægsta verðið á grænum baunum var í Prís (238 kr.) en þar á eftir fylgdu Bónus (247 kr.), Krónan (248 kr.), Nettó (249 kr.) og Fjarðarkaup (259 kr.). Á gulum baunum var lægsta verðið hins vegar í Kjörbúðinni (290 kr.) og Extra (290 kr.) en þar á eftir fylgdu Bónus (297 kr.) og Krónan (298 kr.).

Hið sígilda rauðkál frá Beauvais var ódýrast á 379 kr. í Bónus en hæsta verðið var að finna í Extra þar sem það kostaði yfir 40% meira (529 kr.). Rauðkálið fannst einnig í Krónunni (380 kr.), Fjarðarkaupum (389 kr.), Nettó (419 kr.) og Hagkaupum (449 kr.)

Á meðfylgjandi súluriti má sjá verð á völdu meðlæti

Gosið

Mikið úrval er að finna af drykkjarvörum á veisluborðið þar sem mikill munur getur verið á stærðum pakkninga. Á vef verðlagseftirlitsins má finna nýjustu verð yfir einstakar vörur en einnig yfir ódýrasta lítraverð.

Verð á malti og appelsín í 500 ml. dós var lægst í Prís af þeim verslunum sem verðlagseftirlitið heimsótti. Það er jafnframt ódýrasta fáanlega lítraverð á þessum sígilda jóladrykk. Dósin var á 269 kr. Prís, borið saman við 277 kr. í Bónus, 278 kr. Krónunni og 279 kr. í Fjarðarkaupum. Allt að þriðjungsmunur var á lægsta og hæsta verði á malti og appelsíni í dós en hæsta verðið var að finna í Kjörbúðinni og Extra.

Ódýrasta flaska af kóki í gleri, 330 ml. var í Bónus á 225 krónur en hæsta verðið var 279 krónur í Hagkaup og Kjörbúðinni. Sé ætlunin að finna lægsta lítraverðið er það að finna í kaupum á 4 x 2 ltr kókflöskum í Prís (144 kr./ltr).

Verðbreytingar milli ára

Jólavörur hafa sumar hverjar hækkað verulega frá desember í fyrra.

Malt og Appelsín í dós kostaði 199 kr. í Extra í fyrra en kostar nú 349 kr., 75% hækkun.
Malt og Appelsín í gleri hækkar úr 209 kr. í 247 kr. í Bónus, eða um 18%. Sama gildir um Krónuna, þar sem verðið fór úr 210 kr. í 248 kr.
Freyju 46% suðusúkkulaði kostaði 359 kr. jólin 2023 í Bónus, 395 kr. í fyrra (10% hærra en árið áður), en kostar nú 609 kr. (54% hærra en í fyrra og 70% hærra en 2023).
Nóa konsúm suðusúkkulaði, 300 gr., hækkar um 35% í Prís, úr 679 kr. í 919 kr.

Aðrar vörur lækka þó.

Euroshopper extra virgin ólífuolía 1 ltr. lækkar í Hagkaup og Bónus um 24% milli ára.
Pink Lady epli, fjögur í pakka, lækka í Bónus úr 598 kr. í 498 kr., 17% lækkun.
500gr af bláberjum lækka í Krónunni um 16% og rauð vínber í boxi um 14%.
Gestus sinnepssíld í bitum lækkar um 10% í Krónunni.

Fyrirvari frá Verðlagseftirliti ASÍ

Könnunin var gerð í síðustu viku og voru verð á matvöru borin saman í Bónus, Krónunni, Prís, Nettó, Fjarðarkaupum, Hagkaupum, Kjörbúðinni og Extra. Í verðsamanburði er miðað við hilluverð sem neytandi hefur upplýsingar um í versluninni. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar og geta neytendur nálgast nýjustu verð verðlagseftirlitsins í Nappinu eða á verdlagseftirlit.is

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Hvetur foreldra til að huga að þessu – „Óbærileg fyrir börn og ungmenni sem finna sig iðulega með öllu vanmáttug í þessum aðstæðum”

Hvetur foreldra til að huga að þessu – „Óbærileg fyrir börn og ungmenni sem finna sig iðulega með öllu vanmáttug í þessum aðstæðum”
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Andrés sakfelldur fyrir nauðgun gegn stúlku undir 15 ára aldri – Brotaþoli gat lýst íbúðinni hans

Andrés sakfelldur fyrir nauðgun gegn stúlku undir 15 ára aldri – Brotaþoli gat lýst íbúðinni hans
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Dánarbú blindrar og fjölfatlaðrar konu þurfti að borga Tryggingastofnun – Hafði ekki hugmynd um skuldina

Dánarbú blindrar og fjölfatlaðrar konu þurfti að borga Tryggingastofnun – Hafði ekki hugmynd um skuldina
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Súlunesmálið: Margrét ekki svipt föðurarfinum – Hundruð handskrifaðra skilaboða hennar til foreldranna vekja óhug 

Súlunesmálið: Margrét ekki svipt föðurarfinum – Hundruð handskrifaðra skilaboða hennar til foreldranna vekja óhug 
Fréttir
Í gær

Salvar Þór 12 ára trónir enn á toppnum

Salvar Þór 12 ára trónir enn á toppnum
Fréttir
Í gær

Myndband: Íslendingar sagðir hafa átt í götuslagsmálum í Taílandi

Myndband: Íslendingar sagðir hafa átt í götuslagsmálum í Taílandi
Fréttir
Í gær

Sakar Sjálfstæðismenn um hræsni og segir að af öllum lygum stjórnarandstöðunnar sé þessi sú svæsnasta

Sakar Sjálfstæðismenn um hræsni og segir að af öllum lygum stjórnarandstöðunnar sé þessi sú svæsnasta
Fréttir
Í gær

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“