fbpx
Laugardagur 27.desember 2025
Fréttir

Framtíðin blasti við Karli og Margréti – Fallega lagið sem þjóðin þekkir var hinsta kveðja þeirra

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 26. desember 2025 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin Berklar á Íslandi eftir Erlu Dóris Halldórsdóttur er nýlega komin út hjá Bókaútgáfu Hólar.

Í bókinni er fjallað um einn lífshættulegasta smitsjúkdóm sem gengið hefur á Íslandi og nær sagan fram til ársins 1950. Þá fór bæði að draga úr smitum og dauðsföllum af völdum veikinnar. Berklaveiki var mikið mein í íslensku samfélagi í byrjun tuttugustu aldar og var dánartala berklasjúklinga á Íslandi ein sú hæsta í Evrópu. Í bókinni er að finna fjölmargar persónusögur, sumar enduðu illa, en aðrar vel.

Erla segir í viðtali meðal annars að konur hafi frekar veikst af berklum en karlar, ástæðan var í raun einföld:

Þú nefnir í bókinni og styður það með tölfræði að konur veiktust frekar af berklum en karlar. Hvernig stendur á því?

„Konur á aldursbilinu 20–29 ára voru langstærsti hópur kvenna sem fengu berklaveiki og þá einkum lungnaberkla. Þær voru einnig í meirihluta sem dóu af völdum berklaveiki. Fyrstur til að vekja athygli á berklaveiki í konum var Sigurður Magnússon yfirlæknir á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum árið 1924. Hann komst að þeirri niðurstöðu að karlar dveldu meira úti í fersku lofti en konur sem sáu um heimilisstörf innandyra. Karlarnir dvöldu í heilsusamlegra umhverfi við það að vinna úti. Konur unnu oft víða í dimmum og loftlausum eldhúsum og búrum. Sigurður brýndi fyrir fólki að alls staðar þar sem konur störfuðu þyrfti að vera gott loft og ljós. Hann taldi að léleg húsakynni kæmu harðast niður á konum en körlum því að þær dvöldu lengur inni í húsum en karlar. Það, sem kom honum mest á óvart, að flestar konur sem dóu af völdum lungnaberkla, bjuggu á Austurlandi en þar voru gömlu torfbæirnir, dimmir og loftlausir í miklum meirihluta. Fólk sem svæfi í lélegum húsum taldi hann að útiloft á daginn eyddi að mestu áhrifum loftleysis á nóttinni. Hann hvatti konur til að verja hverri frístund til útiveru og hvatti konur til skíða- og skautaferða.

Þegar rýnt er í dánarvottorð frá 1911–1950 sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands, samtals 3,621 talsins kemur í ljós að þau eru 62% af heildarfjölda þeirra sem létust af völdum berklaveiki. Það sem vekur athygli er hversu hátt hlutfall kvenna á aldrinum 15–30 ára lést af völdum berkla eða önnur hver kona sem dó á þessum aldri lést af völdum berkla. Flestir karlar á sama aldri, 15–30 ára, dóu einnig af völdum berkla, eða um 20%. Frekari rannsókna er þörf á muninum á berkladauða milli kvenna og karla á þessum aldri á árum 1911–1950.“

Sjá einnig: „Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“

„Í fjarlægð“

Karl Ottó Runólfsson (f. 1900) tónskáld missti eiginkonu sína, Margréti Kristjönu Sigurðardóttur (f. 1910) 23 ára, á Kristneshæli í Eyjafirði árið 1934. Þau voru nýgift og lífið blasti við þeim hjónum. Hún starfaði sem hárgreiðslukona á Akureyri og fékk berkla. Karl var eitt sinn á leið í heimsókn á Kristneshælið þar sem hún lá banaleguna í mars 1934. Hann hafði margsinnis komið á hælið í heimsókn til hennar og hafði stundum fiðluna sína með og spilaði fyrir sjúklingana. Í mars 1934 var von á Karli í heimsókn til Margrétar sinnar en vont veður hamlaði því að hann kæmist til hennar. Á hælinu var sjúklingur, Valdimar Hólm Hallstað ljóðskáld. Hann hafði dvalið á hælinu frá 1932. Margrét, eiginkona Karls, bað Valdimar Hólm að yrkja fyrir sig ljóð, hinstu kveðju til handa Karli Ottó, eiginmanni sínum. Hún vissi að hún væri að deyja og að Karl kæmist ekki í tæka tíð til sín vegna veðursins. Þegar Karl komst loks til Margrétar var hún dáin. Hún lést 27. mars 1934 og Karl fann bréfsnepil með ljóði á náttborðinu hennar. Hann vissi ekki hver hefði samið ljóðið „Í fjarlægð“ en Karl samdi lag við textann. Lík Margrétar var flutt til Reykjavíkur þar sem hún var jarðsett þann 13. apríl. Texti lagsins var talinn vera eftir „Cæsar“ en með tímanum komust menn að því að það hefði verið Valdimar Hólm Hallstað ljóðskáld sem var skáldið bak við textann „Í fjarlægð“. „Í fjarlægð“ var flutt við jarðarför Margrétar.

Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við,
minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar
er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,
heyrirðu ei storminn kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina
sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gæti farið svo að innanlandsflugi verði aflýst vegna veðurs á morgun

Gæti farið svo að innanlandsflugi verði aflýst vegna veðurs á morgun
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Martröð ferðamanns á Íslandi – Kostnaðurinn rauk upp vegna bílastæða

Martröð ferðamanns á Íslandi – Kostnaðurinn rauk upp vegna bílastæða
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hin íslenska Katina er dáin 50 ára að aldri – Þekkt fyrir að ulla á áhorfendur

Hin íslenska Katina er dáin 50 ára að aldri – Þekkt fyrir að ulla á áhorfendur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðný Halla ný í framkvæmdastjórn Nova

Guðný Halla ný í framkvæmdastjórn Nova