fbpx
Sunnudagur 21.desember 2025
Fókus

Margrét Sól: Sagði upp verkfræðistarfinu hjá Össuri til að elta drauminn

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 20. desember 2025 10:30

Margrét Sól Ragnarsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Sól Ragnarsdóttir dúxaði þegar hún útskrifaðist með mastersgráðu í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík og tryggði sér draumastarf hjá alþjóðlega tæknifyrirtækinu Össuri. Hún virtist vera á „réttu leiðinni“ en innra með henni var eitthvað sem togaði hana í aðra átt. Í haust tók hún þá stóra ákvörðun um að segja upp starfi sínu og stökkva út í óvissuna til að verða listakona. Margrét er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Hún ræðir um námsferilinn, vinnuna, listina, einhverfugreininguna sem hjálpaði henni að skilja sig betur og spennandi framtíð í þættinum sem má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Margrét segir að hún myndi ekki lýsa sér sem mjög listrænu barni en hún hafi föndrað mikið og orðið fyrir áhrifum frá móður sinni og ömmu sem höfðu gaman af því að föndra og sauma. Henni gekk einnig vel í handavinnuáföngum í skóla,

„Þegar ég fór úr grunnskóla og yfir í menntaskóla þá fór ég svona að átta mig á mikilvægi skólans og leggja meira vægi á að fá góðar einkunnir,“ segir hún og bætir við að allur fókus hafi farið í það.

Hún rifjar upp þegar myndlistarkennarinn hennar sagði við hana að hún væri með hæfileika á þessu sviði og ætti að fylgja því eftir.

„Og ég hugsaði bara: Nei, hvað meinarðu? Maður fer bara í skóla,“ segir hún, en í hennar huga var list ekki eitthvað til að elta, heldur frekar ákveðin leið til að gera hlutina og fór hún á náttúrufræðibraut við Kvennaskólann í Reykjavík. Hún átti auðvelt með raungreinar eins og stærðfræði og eðlisfræði.

„Það gekk rosa vel, en ég var svo ákveðin í því að listatengdir hlutir skiptu engu máli. Ég hélt að þetta væri bara eitthvað áhugamál.“

Margrét veit ekki hvaðan þessi hugmynd kom, það var ekki fjölskyldan sem mataði hana af því en kannski voru þetta áhrifin frá samfélaginu eða bara eitthvað sem hún ákvað ung.

Margréti gekk vel í raungreinum og ákvað að fylgja því eftir.

Gaman að vinna hjá Össuri

Eftir útskrift fór Margrét beint í háskóla. Þegar hún var enn í Kvennó var hún búin að kynna sér starfsemi  Össurar og vissi að þarna langaði hana að vinna.

Hún lærði heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Á síðasta árinu hennar í BS-námi fór hún í starfsnám hjá Össuri og svo fékk hún sumarstarf hjá fyrirtækinu. Hún vann einnig meistaraverkefnið sitt hjá Össuri og fékk starf strax eftir útskrift, en þá önn dúxaði hún.

Það mætti því segja að allur hennar háskólaferill hafi snúist um að vinna hjá Össuri. „Enda er það geggjuð vinna,“ segir Margrét brosandi.

En hjartað vildi annað og sagði Margrét starfi sínu lausu í haust og kláraði uppsagnarfrestinn í lok nóvember. Hún fer yfir ákvörðunina að hætta, en það tók tíma fyrir hugmyndina að verða að veruleika.

„Ég byrjaði að mála aftur fyrir um fjórum árum síðan. Ég var að reyna að borga alla reikninga og var að leita að leiðum til að afla mér auka tekna. Ég hugsaði að ég var nú einu sinni alveg góð í að mála og hafði sem unglingur kynnt mér tækni Bob Ross og það kom vel út.

Ég prófaði þetta bara aftur í þeirri von um að reyna að selja það og var að mála í frítímanum mínum, ég var að mála hluti sem ég hélt að ég gæti selt. Ekki endilega mála hluti sem mig langaði til að mála.“

Margrét rifjar upp þegar hún sá stórt vegglistarverk á byggingu fyrir þremur til fjórum árum og hugsaði með sér: „Vá, einn daginn langar mig að gera svona.“

„Þá byrjaði lítið fræ að myndast í hausnum mínum,“ segir hún.

Margrét rifjar upp þegar hún sá stórt vegglistarverk á byggingu fyrir þremur til fjórum árum og hugsaði með sér: „Vá, einn daginn langar mig að gera svona.“

Fékk vægt taugaáfall

Fyrir um einu og hálfu ári byrjaði Margrét að hlusta á þessa innri rödd, ekki bara varðandi listina heldur einnig önnur svið lífsins.

„Ég var svo lengi í aðstæðum þar sem að ég leyfði mér ekki að gera það sem ég vildi. Ég var að gera það sem öðrum fannst ég ætti að vera að gera og lifa hvernig öðrum fannst ég ætti að lifa lífinu,“ segir Margrét, sem fylgdi ekki innsæinu í mörg ár og andlega líðanin versnaði.

„Þar til mér leið bara það illa bara í mínu daglega lífi að mig bara langaði ekki að vakna næsta morgun. Það var bara orðið það erfitt að fara í gegnum daglegt líf og ég fann að ég var ekki eins og ég vildi vera.

Á þessum tíma var ég að fara að gifta mig og einhver sagði við mig, því á þessum tíma leið mér mjög illa, að þetta ætti að vera hamingjusamasti tími lífsins; að plana brúðkaup og hefja þennan kafla. Manni ætti að líða svo vel, og ég hugsaði að það hljóti að vera eitthvað að. Ég ímyndaði mér restina af lífinu í þessum aðstæðum og ég gat ekki meira, ég fékk bara vægt taugaáfall.“

Það sem hafði líka mikil áhrif á Margréti á þessum tíma var að hún fékk einhverfugreiningu. „Ég lærði alls konar hluti um sjálfa mig, af hverju ég hugsa eins og ég hugsa og af hverju ég er eins og ég er. Og ég lærði að partur af því að vera með einhverfu er að vera með þessa svarthvítu hugsun. Annaðhvort eru hlutir svona eða ekki,“ segir hún.

Það hjálpaði henni mikið að fá einhverfugreiningu.

„Sem er akkúrat ástæðan fyrir því að ég elska stærðfræði. Það er annað hvort rétt eða rangt, ekkert grátt svæði. Og ég hafði alltaf hugsað að ef maður ákveður eitthvað, eins og ég var búin að ákveða að ég ætlaði að vinna í Össur, þá vinn ég bara í Össur. Og ég var í sambandi og þá myndi ég bara vera í þessu sambandi, sama hvað. Ég hélt alltaf að það þyrfti eitthvað hræðilegt að gerast til að maður færi úr sambandi. Ég fattaði ekki að maður mætti fara bara því manni langaði til þess.“

Með greiningunni lærði Margrét meira um og inn á sig sjálfa. Hún áttaði sig á því að hún má klæða sig eins og hún vill, mála hluti sem aðrir fíla kannski ekki og gera það sem hún vill. „Þetta var svo mikil umbreyting í lífinu mínu.“

Tók stökkið og sér ekki eftir neinu

Síðan þá hefur Margrét verið að finna út hvað hún vill fá úr lífinu og hvað hún vill gera. „Ég hefði aldrei getað tekið þessa ákvörðun að segja upp vinnunni í haust, nema því að ég var búin að fara í gegnum svo stóra lífsbreytingu. Ég græddi svo ótrúlega mikið á því, þegar kom að því að hætta í vinnunni þá var ég ekki hrædd við að taka stökkið, því ég fann: Mig langar að vera að mála. Mig langar að setja allan tímann minn í eitthvað sem ég nærist svo á.“

Margrét talaði við foreldra sína áður en hún lét til skarar skríða, en móðir hennar hafði sjálf tekið svipaða áhættu nokkrum árum áður. „Hún hafði verið hjúkrunarfræðingur allt sitt líf og fyrir svona tveimur, þremur árum hætti hún í því og stofnaði prjónabúð í Hafnarfirði,“ segir Margrét.

„Við fórum í gegnum alla punktana og ég fattaði að ég væri með svar við öllu. Ég hafði svo… ég hef svo mikla trú á því að ég get gert eitthvað geggjað og að ég get fundið út úr þessu.“

Eftir þetta samtal ákvað Margrét að kýla á þetta. Hún sagði upp vinnunni og kláraði þriggja mánaða uppsagnarfrestinn í lok nóvember.

Margrét er í ferlinu að setja upp heimasíðu þar sem er hægt að skoða og kaupa verk af henni, margretsol.is. Hún er einnig virk á Instagram og TikTok undir @margretsol.art.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

John Lewis í klandri vegna jólaauglýsingar – Hörð gagnrýni á jólagjöf eiginmannsins til eiginkonunnar

John Lewis í klandri vegna jólaauglýsingar – Hörð gagnrýni á jólagjöf eiginmannsins til eiginkonunnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fullyrðir að barnabarn Presley sé líffræðileg móðir sonar John Travolta

Fullyrðir að barnabarn Presley sé líffræðileg móðir sonar John Travolta
Fókus
Fyrir 3 dögum

Felix fellur í kramið hjá Finnum

Felix fellur í kramið hjá Finnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjö mánuðir síðan Einar Bárðar fór í hárígræðslu – Svona lítur hann út í dag

Sjö mánuðir síðan Einar Bárðar fór í hárígræðslu – Svona lítur hann út í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þess vegna ætlar hjartaknúsarinn aldrei aftur að kyssa mótleikkonur sínar

Þess vegna ætlar hjartaknúsarinn aldrei aftur að kyssa mótleikkonur sínar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bestu og verstu bókarkápurnar að mati DV

Bestu og verstu bókarkápurnar að mati DV