
Eitt helsta málefnið í innlendum fréttum í dag er þingsályktunartillaga um samgönguáætlun, sem Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra leggur fram, fyrir árin 2026-2040. Áætlunin er viðamikil og þar er fjallað um samgöngukerfið í heild sinni en einna mest hefur í umræðunni um hana borið á breyttri forgangsröðun í jarðgangagerð. Í áætluninni er einnig fjallað um almenningssamgöngur, vítt og breitt um landið, en sumir liðir um þær í áætluninni virðast hins vegar stangast á og því í raun um þversagnir að ræða.
Undir liðnum „markmið um jákvæða byggðaþróun“ segir um almenningssamgöngur á landsbyggðinni:
„Unnið verði að því í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að almenningssamgöngur á landsbyggðinni verði efldar þar sem grundvöllur er til þess. Sérstaklega verði samgöngur innan vinnusóknarsvæða efldar. Leitað verði leiða til þess að draga úr ferðatíma og tryggja öryggi. Virkt samráð verði viðhaft við skipulagningu þjónustunnar.“
Markmiðið virðist miðað við þetta að efla ekki almenningssamgöngur bókstaflega um allt land heldur einblína á þá hluta landsins þar sem talinn er grundvöllur fyrir því.
Samgönguætlun gildir til 2040 en í henni er aðgerðaáætlun sem gildir fyrir árin 2026-2030 en í henni er liður sem ber einnig yfirskriftina „markmið um jákvæða byggðaþróun“. Þar segir um almenningssamgöngur:
„Áfram verði unnið að gerð heildstæðs leiðakerfis almenningssamgangna milli byggða um land allt. Skilgreina skal samræmd þjónustuviðmið og styðja við samvirkni leiða og leiðakerfa.“
Það er vandséð hvernig orðin „almenningssamgöngur á landsbyggðinni verði efldar þar sem grundvöllur er til þess“ og „áfram verði unnið að gerð heildstæðs leiðakerfis almenningssamgangna milli byggða um land allt“ geta farið saman.
Það að það að efla almenningssamgöngur eingöngu þar sem grundvöllur þykir vera til þess getur vart passað við að koma á heildstæðu leiðakerfi um allt land því það hlýtur að fela í sér að þvert á móti efla almenningssamgöngur um bókstaflega allt land.
Því virðist hér vera um þversögn að ræða.
Þegar kemur að útgjöldum til almenningssamgangna, a.m.k. á landsbyggðinni, þá kemur fram í samgönguáætlun að þau muni lækka.
Vegagerðin sér um að bjóða út og gera samninga um rekstur almenningssamgangna á landsbyggðinni. Í samgönguáætlun segir að árunum 2026-2030 muni framlög til samninga um rekstur ferjusiglinga og reksturs ferja lækka úr samtals 1,7 milljarði króna á ári í 1,4 milljarði. Útgjöld til samninga vegna almenningssamgangna á landi munu lækka úr 1,5 milljarði í 1,3. Útgjöldin vegna flugs munu síðan lækka úr um 1,7 milljarði í um 1,6. Einnig er gert ráð fyrir því að tekjur af farþegagjöldum muni standa í stað. Hins vegar mun Vegagerðin auka útgjöld sín til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu fram til 2029 úr 3,3 milljörðum í 3,6 en síðan lækka í 3,5 en um er að ræða framlag til nýstofnaðs félags ríkisins og sveitarfélaganna á svæðinu, um almenningssamgöngur, en samkvæmt samkomulagi á ríkið að greiða 1/3 af útgjöldum félagsins, að frádregnum tekjum þess. Allar þessar tölur miða við verðlag í fjárlögum ársins 2026.
Við fyrstu sýn virðist um þversögn að ræða. Hvernig á að efla almenningssamgöngur um landið eins og fram kemur í samgönguáætlun að markmiðið sé þegar útgjöld eru lækkuð og áætlað að tekjur muni ekki hækka á móti?
Það er vissulega erfitt að áætla tekjur af farþegum þegar það er óvissu háð hversu margir þeir verða.
Um tekjur af farþegum segir í samgönguáætlun að bæði þjónustukannanir og ferðavenjukönnun dragi fram þá staðreynd að ein stærsta hindrun fyrir aukinni notkun almenningssamgangna er verðlag. Ekki síst sé ákall um lægri fargjöld á lengri leiðum.
Hvort þetta þýði að einhverjar breytingar verði gerðar á fargjöldum kemur hins vegar ekki fram.
Eitt af áherslumálum áætlunarinnar er notkun umhverfisvænni orkugjafa í almenningssamgöngum og þær áherslur hafa nú þegar birst í nýju leiðakerfi fyrir landsbyggðarstrætó sem tekur gildi eftir áramót en í hinu nýja leiðakerfi verða í auknum mæli notaðir strætisvagnar sem ganga fyrir rafmagni. Mögulega skýra þessar breytingar hin lækkandi framlög en helsta skýringin virðist hins vegar vera áhersla ríkisstjórnarinnar á að draga úr þenslu og halla á ríkissjóði en tekið er fram að útgjöld til samgangna geti breyst, verði einhverjar breytingar á þessum forsendum.
Minnkandi útgjöld til almenningssamgangna á landsbyggðinni eru hins vegar ekki skýrð sérstaklega í samgönguáætlun en fram kemur að orkuskipti kalli á nokkra fjárfestingu, bæði í rekstri og innviðum, bæði í formi hleðsluinnviða og samgöngumannvirkja. Í þessu skyni verður sérstöku framlagi ráðstafað til orkuskipta í landsbyggðarvögnum og ferjum en það verður 260 milljónir króna á næsta ári, en síðan 190 milljónir á ári fram til 2030. Þessu framlagi mætti því líklega bæta við útgjöldin til almenningssamgagna en það mun þá rýrna að raungildi vegna verðbólgu. Orkuskipti ein og sér efla hins vegar varla almenningssamgöngur heldur snýst það um t.d. ferðatíðni og leiðakerfi.
Eftir situr því þessi óútskýrða að því er virðist þversögn. Hvernig á að ná markmiðum samgönguáætlunar um að efla almenningssamgöngur ef útgjöldin lækka og reiknað er með að tekjur standi í stað og rýrni þar með að raungildi? Það er að minnsta kosti ekki útlistað nánar í samgönguáætlun hvernig ná á markmiðunum með minna fjármagni.