
Stjórn Knattspyrnudeildar Vals hefur leyst Aron Jóhannsson leikmann félagsins undan starfsskyldum sínum og er honum nú frjálst að semja við annað félag.
„Aron lék alls 76 leiki í efstu deild fyrir Val og skoraði í þeim 19 mörk. Við þökkum Aroni fyrir hans framlag til félagsins og óskum honum góðs gengis á nýjum vettvangi,“ segir á vef Vals.
Aron er samningsbundinn Val út næstu leiktíð og því þarf félagið áfram að greiða honum laun út samninginn samkvæmt heimildum 433.is.
Framherjinn knái fór samkvæmt heimildum 433.is á tvo fundi með stjórnarmönnum félagsins, fyrst um sinn var honum tjáð að hann mætti finn sér nýtt lið og á seinni fundum var honum tjáð að hann væri ekki lengur velkominn á æfingar hjá félaginu og að félagið myndi borgum honum upp samninginn.
Hermann Hreiðarsson var ráðinn þjálfari Vals á dögunum og virðist félagið á leið í nýja átt. Aron er 36 ára gamall en hann átti farsælan feril í atvinnumennsku með AGF, AZ Alkmaar, Werder Bremen og Lech Poznan áður en hann snéri heim til Íslands og samdi vð Val haustið 2021.