

Heiðrún skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag undir yfirskriftinni Kemur þú auga á svikin?
„Of oft erum við sjálf veikasti hlekkurinn. Stundum þarf ekki nema augnabliks hugsunarleysi til að falla í gildruna,“ segir hún og bendir á að á þessum árstíma rigni inn tilboðum á netdögum og aðventunni á sama tíma og tilraunum til netsvika fer fjölgandi.
„Við erum oftar en ekki að flýta okkur á þessum árstíma enda nóg að gera fyrir jólin og góð tilboð geta virkað freistandi. Því er mikilvægt að temja sér varkárni og halda aftur af hvatvísinni.“
Heiðrún segir gott að staldra við og skoða hlutina vel áður en þú gefur frá þér fjárhagsupplýsingar eða lykilorð, til að tryggja að þú sért að eiga í viðskiptum við þann sem þú heldur en sért ekki að verða fórnarlamb svikara.
„Gott er að hafa í huga að ef tilboðin virka of góð til að vera sönn, þá eru þau það trúlega – of góð til að vera sönn,“ segir hún og bendir á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, sff.is, þar sem hægt er að taka netsvikapróf ef fólk vil kanna þekkingu sína á netsvikavörnum. Þar má einnig finna nokkur heilræði um hvernig verjast megi netsvikum.
Heiðrún birtir svo meðfylgjandi ráð um hvernig verjast megi netsvikum:
„Rafræn skilríki. Verið sérstaklega tortryggin gagnvart öllu er snýr að rafrænum skilríkjum. Aðferðir svikara til að komast þar inn verða sífellt þróaðri og bíræfnari.
Aldrei samþykkja innskráningarbeiðnir eða aðgerðir í netbanka eða appi sem þú kannast ekki við eða eru óvenjulegar, s.s. í gegnum rafræn skilríki, lykilorð, eða beiðnir um millifærslu eða kortagreiðslu.
Fylgist með kortafærslum og kortayfirlitum. Það er ávallt hætta á að greiðslukort séu misnotuð. Góð regla er að frysta kort sem eru ekki notuð daglega, það er einfalt í símaappi eða heimabanka.
Ekki gefa upp bankaupplýsingar, kortanúmer eða pin-númer í gegnum rafræn samskipti, þú getur aldrei verið viss um hver er hinum megin á línunni eða gæti lesið skilaboðin síðar.
Ekki hlaða niður óþekktum forritum eða opna varasama hlekki.
Skoðið vel vefslóðir og netföng, líka þekktra fyrirtækja, þau gætu auðveldlega verið fölsuð.
Hafðu strax samband við bankann þinn, kortafyrirtækið eða lögreglu ef þú telur að þú hafir orðið fyrir svikum.“