
Gígja Valgerður Harðardóttir, fyrirliði Víkings, hefur yfirgefið félagið og ákveðið að flytja norður.
Gígja er 34 ára gömul og hefur verið hjá Víkingi undanfarin tvö tímabil, en hún lék einnig með HK/Víkingi á árum áður.
Gígja er í leikjahæst allra Víkinga í efstu deild með 78 leiki og í fimmta sæti í heildarleikjafjölda með alls 171 leik, eins og fram kemur á heimasíðu félagsins.
Tilkynning Víkings
Gígja Valgerður Harðardóttir, fyrirliði meistaraflokks Víkings, hefur ákveðið að flytja norður yfir heiðar. Þar með hefur hún spilað sinn síðasta leik fyrir Víking – að minnsta kosti í bili.
Gígja gekk fyrst til liðs við sameiginlegt lið HK og Víkings vorið 2016. Fljótlega kom í ljós hversu mikill fengur hún var og þær voru einungis örfáar mínúturnar sem hún spilaði ekki það sumar. Sama var uppi á teningnum árið eftir þegar liðið tryggði sér sæti meðal þeirra bestu. Hún lék svo í Pepsi-deildinni bæði 2018 og 2019 og missti aðeins af einum leik á þeim tíma. Það kom því ekki á óvart að hún var fljót að komast í 100-leikja klúbbinn, sú fyrsta til að ná því á fjórum árum.
Við slit á samstarfi HK og Víkings, þegar liðið féll haustið 2019 var komið að nýjum kafla í í lífi Gígju, en tveimur stúlkum ríkari tók hún fram skóna að nýju og gekk aftur til liðs við Víking fyrir tímabilið 2024. Hún átti frábært tímabil þegar liðið tryggði sér þriðja sætið það ár og sem fyrirliði liðsins á nýliðnu tímabili var hún í enn stærra hlutverki. Bæði árin var hún var hún af samherjum sínum valin besti leikmaður liðsins innan sem utan vallar, en henni hafði einnig hlotnast sú nafnbót 2019 og er í dag eini leikmaður Víkings til að hljóta þá nafnbót og hampa Lárubikarnum þrisvar sinnum. Gígja er í dag leikjahæst allra Víkinga í efstu deild með 78 leiki og í fimmta sæti í heildarleikjafjölda með alls 171 leik. Að auki á hún 229 leiki með öðrum liðum og fjóra Evrópuleik – samtals 404 leiki, þar af eru 181 í efstu deild. Með því er hún í 35. sæti allra kvenna frá upphafi.
Ferill Gígju er fullur af eftirminnilegum augnablikum. Eitt það stærsta var í úrslitaleik Meistara meistaranna 2024, þegar hún skoraði úr lokaspyrnu gegn þáverandi Íslandsmeisturum Vals og tryggði Víkingum sigur. Aðrir minnisverðir sigrar eru meðal annars úrslitaleikur 1. deildar gegn Selfossi 2017, óvæntur sigur á FH í upphafsleik Íslandsmótsins 2018 og sigur gegn Grindavík sem tryggði áframhaldandi veru í efstu deildinni það ár. Þá vann Víkingur frækinn sigur á Þór/KA í lokaleik Íslandsmótsins 2024 og tryggði með því besta árangur liðsins frá upphafi – þriðja sætið.
Í bikarasafni Gígju eru einnig Lengjubikarinn 2017 og tveir Reykjavíkurmeistaratitlar 2024 og 2025.
Það er með miklum söknuði sem Víkingar kveðja Gígju, en einnig gleði fyrir hennar hönd að flytja á heimaslóðir og sameinist fjölskyldu og vinum. Við óskum henni alls hins besta í því sem hún tekur sér fyrir hendur og vitum að hjartað slær áfram með Víkingum.
Sjáumst fljótt aftur í Hamingjunni Gígja