
„Hann hefur verið yfirheyrður þar og það heldur bara áfarm.. Nú heldur rannsóknin bara áfram,“ segir Skarphéðinn Aðalsteinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Norðurlandi eystra, um mál lögmanns sem situr í gæsluvarðhaldi í Fangelsinu Hólmsheiði, vegna rannsóknar lögreglu á skipulagðri glæpastarfsemi og ólöglegum innflutningi á fólki.
Mál lögmannsins tengist máli sem lögreglan fyrir norðan hefur verið með til rannsóknar frá því í sumar en ráðist var í aðgerðir víðsvegar um landið vegna rannsóknar málsins, meðal annars í Reykjavík og á Raufarhöfn. Fjöldi fólks var handtekið og fíkniefnaframleiðsla upprætt. Nokkrir sátu í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins og seint í ágúst voru fjórir sakborningar sendir til Albaníu eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í tvo mánuði (sjá RÚV).
Skarphéðinn staðfestir í samtali við DV að lögmaðurinn sé meðal annars yfirheyrður vegna gruns um hlutdeild hans í ólöglegum innflutningi á fólki og peningaþvætti. „Og fleira og fleira,“ segir Skarphéðinn. Hann staðfestir að lögmaðurinn hafi verið í einangrun frá því hann var handtekinn og að hann hafi verið yfirheyrður ítrekað og yfirheyrslur muni halda áfram. DV spurði Aðalstein hvort lögmaðurinn hafi verið samtarfsfús:
„Núna ætla ég ekki að tjá mig nákvæmlega um rannsóknina.“ Aðspurður um hvaða mögulegu brot lögmaðurinn er grunaður um segir Skarphðeinn: „Það er vont fyrir mig að vera að tjá mig mikið um það, það er bara til skoðunar og rannsóknar.“
DV spurði Skarphéðinn hvort hann telji líklegt að lögmaðurinn verði ákærður: „Nú vel ég mér alltaf að vera hlutlaus hvað það varðar vegna þess að það er ekki mín ákvörðun. Mín ábyrgð snýr að því að stjórna rannsóknardeild sem rannsakar mál, bæði hvað varðar sekt og sýknu. Sem betur fer þá eru aðrir sem taka ákvarðanir um framhaldið. Við klárum bara okkar rannsókn, skilum henni á ákærusvið og þar fer sú ákvörðun fram.“
Þó að lögmaðurinn sitji í varðhaldi á Hólmsheiði þá er rannsókn málsins alfarið í höndum lögreglunnar fyrir norðan, staðfestir Skarphéðinn. „Við eigum aftur á móti í góðu samstarfi við okkar félaga hjá öðrum embættum og þeir hafa verið okkur innan handar. En þetta er samt á okkar vegum,“ segir hann og lofar þetta samstarf.
Lögmaðurinn hefur nú setið rúma viku í gæsluvarðhaldi og fyrir liggur gæsluvarðhaldsúrskurður sem nær viku fram í tímann. Aðspurður um hvort sá tími muni duga til, segir Skarphéðinn:
„Við leitumst alltaf við að ljúka þeim aðgerðum sem fyrst sem útheimta gæsluvarðhald, það getur vel verið að það takist áður en þessi vika er liðin, það getur vel verið að það þurfi að fara fram á framhald, það verður í rauninni ekki ljóst fyrr en eftir því sem rannsókninni vindur fram. Það er aldrei hægt að fullyrða neitt um það.“
Aðspurður segir hann að rannsókn málsins í heild gangi vel. „Hún gengur bara ágætlega og við erum að leggja mikla orku í þetta.“ Hann segist hins vegar ekki geta svarað því hvort hilli undir lok rannsóknarinnar.
Lögmaðurinn sem situr í varðhhaldi hefur m.a. starfað sem talsmaður fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi. Hann hefur ekki síst unnið fyrir fólk frá Albaníu. Ekki eru aðrir sakborningar við rannsókn málsins í gæsluvarðhaldi. Lögmaðurinn er tæplega fertugur að aldri.
Baldvin Már Kristjánsson lögmaður, verjandi lögmannsins, vildi ekki tjá sig um málið við DV að öðru leyti en því að vísa til þess sem hann hefur þegar látið hafa eftir sér um málið í fjölmiðlum. Segir hann að skjólstæðingur hans neiti sök og hann vænti þess að málið gegn honum verði fellt niður. Gæsluvarðhaldsúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manninum í gær hefur verið kærður til Landsréttar. Alls óvíst er hvenær Landsréttur kveður upp sinn úrskurð. Sem stendur er lögmaðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á næsta þriðjudag.