
Málið hefur vakið talsverða athygli á Ítalíu og verið líkt við kvikmyndina Mrs. Doubtfire þar sem Robin Williams bregður sér í hlutverk eldri konu til að geta verið nær börnum sínum.
Að sögn yfirvalda tilkynnti maðurinn aldrei andlát móður sinnar, Graziellu Dall’Oglio, sem lést árið 2022, 85 ára að aldri. Þess í stað hélt hann áfram að innheimta greiðslur til hennar sem námu liðlega sjö milljónum króna.
Í frétt Corriere della Sera, sem vefmiðillinn People vitnar til, kemur fram að málið hafi komist upp þegar hann mætti á skrifstofu þjóðskrár í sveitarfélaginu Borgo Virgilio til að endurnýja skilríki móður sinnar. Mun hann hafa verið klæddur í blússu og pils og með brúna hárkollu á höfðinu.
Starfsmaður skrifstofunnar er sagður hafa orðið tortrygginn þegar hann sá skeggbrodda á andliti gömlu konunnar. Þá vakti það athygli að „konan“ hafði ekið á staðinn en Dall’Oglio hafði aldrei öðlast ökuréttindi.
Eftir að hafa farið yfir myndefni úr öryggismyndavélum kölluðu yfirvöld manninn aftur á skrifstofuna. Þar biðu hans lögreglumenn og játaði hann blekkinguna á staðnum.
Við húsleit á heimili fjölskyldunnar fannst lík Dall’Oglio. Samkvæmt Telegraph hafði líkið verið vafið inn í rúmföt, komið fyrir í svefnpoka og falið í þvottahúsi. Konan er talin hafa látist af náttúrulegum orsökum en krufning stendur þó yfir.