

Þjófahópurinn sem braust meðal annars inn hjá Alexander Isak framherja Liverpool og stal verðmætum fyrir yfir 1,2 milljónir punda hefur nú verið dæmdur til að greiða aðeins eitt pund til baka.
Isak, þá 26 ára og leikmaður Newcastle United, kom heim í apríl 2024 og fann húsið sitt í Northumberland í rúst eftir innbrot. Þjófarnir höfðu meðal annars tekið skartgripi fyrir 68 þúsund pund, 10 þúsund pund í reiðufé og Audi RS6 bifreið hans metna á 120 þúsund pund.
Newcastle Crown Court fékk sýnt myndband úr gæludýramyndavél Isaks þar sem innbrotsþjófarnir sáust hreyfast um húsið. Þríeyki karla með fyrri dóma fyrir innbrot og þjófnað var inni í stofunni á meðan kona beið í flóttabílnum.

Valentino Nikolov (32), Giacomo Nikolov (28), systir þeirra Jela Jovanovic (43) og sonur hennar Charlie (23) höfðu áður stolið varningi fyrir um milljón pund, þar á meðal hönnunarfatnaði, töskum, skartgripum og jafnvel CBE-orðu úr tveimur öðrum húsum sömu vikuna.
Hópurinn var handtekinn 13. apríl, níu dögum eftir innbrotið hjá Isak, og dæmdur í sex til tíu ára fangelsi.
Ákærendur sögðu þjófana hafa grætt samtals 1.266.285 pund. En aðeins einn þeirra, Charlie, gat greitt 1.135 pund sem lögregla hafði þegar lagt hald á. Hin þrjú höfðu engar eignir sem hægt var að innheimta og voru því dæmd til að greiða táknrænt eitt pund, eða sjö daga fangelsi ef þau greiða það ekki.