
Á upptökunni heyrist Martin Bally, varaforstjóri og öryggisstjóri upplýsingatæknimála hjá fyrirtækinu, tala á niðrandi hátt um vörur fyrirtækisins og viðskiptavini þess.
Í frétt Daily Mail kemur fram að fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins, Robert Garza, hafi höfðað mál gegn Campbell og hljóðupptakan hafi verið lögð fram í málinu. Bútur úr henni var svo birtur á Detroit- sjónvarpsstöðinni Local 4 News í síðustu viku.
Í upptökunni heyrist maður, sem sagður er vera Bally, segja: „Við seljum rusl handa fátæku fólki. Hver kaupir þetta drasl? Ég kaupi varla Campbell-vörur lengur. Þetta er ekki hollt, ekki núna þegar ég veit hvað er í þessu.“
Sá sem talar vísar líka til kjöts sem framleitt er með aðstoð líftækni og segist ekki hafa nokkurn áhuga á að borða kjúkling sem kemur úr þrívíddarprentara.
Bent er á það í frétt Daily Mail að þó svo að líftæknibreytt matvæli séu leyfð til sölu í Bandaríkjunum séu fyrirtæki skyldug til að merkja slíkar vörur.
Campbell’s hefur upplýst að repju-, maís-, soja- og sykurreyrinn sem fyrirtækið notar sé ræktaður úr erfðabreyttum fræjum.
Talsmaður Campbell Soup Company sagði við Daily Mail að fyrirtækið sé stolt af þeim mat sem það framleiðir, fólkinu sem vinnur hann og þeim hágæða hráefnum sem notuð eru.
„Ummælin á upptökunni eru ekki aðeins röng – þau eru hreint út sagt fáránleg. Munið að meint ummæli eru frá upplýsingatæknistarfsmanni sem hefur ekkert með matvælaframleiðsluna okkar að gera. Ef upptakan er ósvikin eru þessi ummæli óásættanleg. Þau endurspegla hvorki gildi okkar né menningu fyrirtækisins.“
Þá er tekið fram að Bally hafi verið settur í tímabundið leyfi á meðan málið er rannsakað.
Talsmaður fyrirtækisins segir enn fremur að kjúklingakjötið sem notað er í súpur fyrirtækisins komi frá traustum birgjum sem hafa hlotið samþykki frá landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna. Þá innihaldi súpurnar kjúklingakjöt sem aldrei hefur verið meðhöndlað með sýklalyfjum.