fbpx
Mánudagur 24.nóvember 2025
Fréttir

Neitað um bætur eftir að farþega blæddi stanslaust

Ritstjórn DV
Mánudaginn 24. nóvember 2025 20:30

Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Farþeginn átti bókað flug frá flugvellinum til Manchester.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samgöngustofa hefur staðfest synjun breska lággjaldaflugfélagsins Easyjet á kröfu íslensks farþega um bætur. Hafði farþeginn átt bókað flug frá Íslandi til Manchester en því hafði verið aflýst eftir að upp höfðu komið upp veikindi um borð í flugvélinni sem nota átti fyrir flugið en farþega hafði blætt svo mikið og stöðugt að nokkurt magn af blóði hafði lekið á gólfið í farþegarýminu.

Umrætt flug átti að fara fram í ágúst 2023 en Samgöngustofa úrskurðaði ekki í málinu fyrr en nýlega, meira en tveimur árum síðar en farþeginn sneri sér ekki til stofnunarinnar fyrr en í júlí á þessu ári.

Flugvélin átti að leggja af stað frá Keflavíkurflugvelli til Manchester klukkan 9:15 að morgni en fluginu var hins vegar aflýst upp úr klukkan 2 nóttina áður.

Í umsögn Easyjet um kröfu farþegans um bætur var minnt á að samkvæmt Evrópureglugerð bæri því engin skylda til að greiða bætur ef flugi væri aflýst af óviðráðanlegum ástæðum sem ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir þrátt fyrir raunhæfar aðgerðir í því skyni.

Blæðingar

Í umsögn félagsins kom fram að kvöldið fyrir umrætt flug hafi flugvélin sem nýta átti í það verið í flugi frá grísku eyjunni Santorini til Manchester. Þá hafi komið upp veikindi hjá einum farþega sem hafi blætt mikið og stöðugt. Þetta hafi haft í för með sér að töluvert magn af blóði hafi lent á teppinu á gólfi farþegarýmisins. Nauðsynlegt hafi verið að taka flugvélina úr umferð til að þrífa farþegarýmið og engin önnur flugvél hafi verið tiltæk í flugið frá Íslandi til Manchester.

Taldi félagið þessar aðstæður og aflýsingu flugsins augljóslega hafa verið óviðráðanlegar og eitthvað sem það hafi ekki getað haft stjórn á. Það væri sjaldgæft að veikindi farþega hefðu slík áhrif en tilfelli af því tagi féllu undir ákvæði reglugerðarinnar um óviðráðanlegar aðstæður og því ætti farþeginn ekki rétt á bótum.

Farþeginn taldi í svari sínu við umsögn Easyjet félagið þó hafa gripið til ráðstafana sem hefðu verið of harkalegar miðað við umfang málsins. Hann væri ekki sérfræðingur í svona málum en svo bætti hann við:

„Persónulega sé ég ekki hvert vandamálið er. Það hlýtur að vera nokkuð algengt að þurfa að þrífa líkamsvessa og ýmislegt óskemmtilegt úr flugvélum nokkuð reglulega, svo sem ælu til dæmis, sem er fyllilega sambærilegt að mínu mati. Á Manchester flugvelli hlýtur að vera tiltækt teymi til að þrífa leiðindavandamál á stuttum tíma.“

Sagði farþeginn að við hefði mátt búast að einhver þrif þyrftu að fara fram og að fluginu seinkaði kannski eitthvað. Hann fljúgi þessa leið nokkuð oft og algengt sé að flug á þessari leið sé um 20 mínútum á undan áætlun. Auðveldlega ætti því að vera hægt að græða 40 til 60 mínútur á leiðinni fram og til baka. Því væri eðlilegt að fluginu hefði kannski seinkað eitthvað en ekki að það hefði hreinlega verið fellt niður.

Sagðist farþeginn í ljósi þessa gefa lítið fyrir afsakanir Easyjet og halda kröfu sinni til streitu. Að fella flugið niður hafi að sjálfsögðu haft mikil áhrif á líf hans og skipulag á þessum tíma.

Óviðráðanlegt

Í niðurstöðu Samgöngustofu segir að Easyjet hafi lagt fram gögn sem sýni fram á að neyðarástand hafi skapast í fyrra flugi flugvélarinnar vegna líkamlegs ástands farþega, sem hafi orðið til þess að framkvæma hafi þurft nauðsynleg þrif innan vélarinnar. Bráðatilvik vegna skyndilegra veikinda farþega teljist ótvírætt til óviðráðanlegra aðstæðna, samkvæmt leiðbeiningum framkvæmdastjórnar ESB. Atvikið hafi falið í sér óviðráðanlegar aðstæður í skilningi evrópskrar reglugerðar um bætur til flugfarþega.

Félagið hafi lagt sig fram við að takmarka afleiðingar af hinum óviðráðanlegu aðstæðum eftir bestu getu. Sé kröfu farþegans um staðlaðar skaðabætur, á grundvelli reglugerðarinnar, því hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ráðuneyti Guðmundar Inga í stríði við Morgunblaðið – Fréttaflutningur gagnrýndur harðlega

Ráðuneyti Guðmundar Inga í stríði við Morgunblaðið – Fréttaflutningur gagnrýndur harðlega
Fréttir
Í gær

Þrettán ára stúlka grunuð um morð í Bretlandi

Þrettán ára stúlka grunuð um morð í Bretlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Breskur stjórnmálaleiðtogi dæmdur fyrir að þiggja mútur – Talaði máli rússneskra yfirvalda

Breskur stjórnmálaleiðtogi dæmdur fyrir að þiggja mútur – Talaði máli rússneskra yfirvalda
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Áhyggjur af mengun og brostnum forsendum vegna stækkunar hesthúsasvæðisins á Selfossi – Bæjaryfirvöld segja skipulagið mjög skýrt

Áhyggjur af mengun og brostnum forsendum vegna stækkunar hesthúsasvæðisins á Selfossi – Bæjaryfirvöld segja skipulagið mjög skýrt