

Erla Björnsdóttir, sálfræðingur, svefnfræðingur og doktor í líf- og læknisfræði, er gestur Einars Bárðarsonar í nýjasta þættinum af Einmitt. Þar fer hún yfir störf sín á sviði svefns og lýðheilsu, en einnig nýjasta og umdeildasta verkefni sitt: baráttuna fyrir því að leiðrétta klukkuna á Íslandi og færa hana aftur um eina klukkustund.
Erla, sem stofnaði Betri svefn og hefur sérhæft sig í svefnleysi og hugrænni atferlismeðferð við svefnvanda (HAM-S), hefur um árabil verið einn sýnilegasti talsmaður landsins fyrir bættri svefnheilsu. Hún hefur birt fjöldann allan af rannsóknum, leiðbeinir nemendum, skrifað bækur og haldið fyrirlestra fyrir fyrirtæki, skóla og stofnanir um mikilvægi svefns og áhrif hans á allt líf okkar.
Í þættinum ræðir hún hvað varð til þess að hún beitti sér opinberlega fyrir því að færa klukkuna á Íslandi og hvers vegna hún telur málið eitt brýnasta lýðheilsuverkefni þjóðarinnar í dag. „Á þessum árstíma velti ég því alltaf fyrir mér hvers vegna Ísland skuli enn fylgja tímabelti sem samræmist illa sólarhæð og náttúrulegum sólargangi. Staðarklukkan okkar er einfaldlega ekki rétt stillt miðað við legu landsins,“ segir hún og bendir á að misræmið hafi verið viðvarandi frá árinu 1968, þegar landið var sett á UTC allt árið af viðskiptalegum ástæðum.
Hún segir að þau rök að farþegar frá Evrópu næðu í banka fyrir lokun eigi augljóslega engan veginn lengur við. Miklu alvarlegra sé að á þeim tíma hafi enginn haft vitneskju um innri lífklukkuna, dægursveifluna og áhrifin sem röng staðarklukka hefur á heilsuna.
Í samtalinu við Einar talar Erla af mikilli alvöru um afleiðingar svefnskorts. „Svefnleysi er dýrasti heilsuvandi fyrirtækja,“ segir hún. „Svefnlausir starfsmenn taka 100% fleiri veikindadaga heldur en fólk sem sefur nóg, og gera fleiri mistök og slys eru líklegri. Þetta er bæði hættulegt og dýrt vandamál fyrir samfélagið.“ Hún bætir við að röng staðarklukka ýti undir svefnvanda þjóðarinnar, sérstaklega yfir dimmasta hluta ársins.
Erla lýsir aðstæðum á Íslandi þannig að við séum í varanlegu tímamismati við okkur sjálf. „Við erum í raun alltaf aðeins „jetlagged“ hér á Íslandi. Það er þessi togstreita milli líkamsklukkunnar og staðarklukkunnar sem er ekki góð fyrir okkur. Hún hefur áhrif á svefn, orku og líðan, og þetta eru áhrif sem maður finnur sérstaklega hjá börnum og unglingum.“ Hún nefnir að 70% framhaldsskólanema séu vansvefta og að Íslendingar séu með heimsmet í notkun svefnlyfja.
Erla rifjar einnig upp baráttuna fyrir því að seinka skólabyrjun unglinga í Reykjavík verkefni sem tók mörg ár og mætti harðri mótspyrnu. „Ég hef alveg skilning á ólíkum skoðunum,“ segir hún, „en stundum er mjög hávær minnihluti sem heldur breytingum niðri, jafnvel þó gögnin og vísindin séu skýr.“ Hún lýsir því hvernig rök andstæðinganna stæðust ekki þegar niðurstöður lágu fyrir:
„Gögnin sýndu að ef unglingar byrja seinna, sofa þeir lengur og líður betur. Og allt þetta tal um að allt myndi riðlast, tómstundir, frístundir og annað það hvarf. Enginn hefur kvartað síðan.“
Nú stendur Erla fyrir undirskriftalista á island.is þar sem landsmenn eru hvattir til að leiðrétta klukkuna. Listinn hefur fengið þúsundir undirskrifta á örfáum dögum. „Við verðum að horfa á vísindin, lýðheilsuna og hvað skiptir mestu máli“