

Það var beinlínis raunalegt að hlýða á fulltrúa minnihlutans á Alþingi tala niður samninginn um evrópskra efnahagssvæðið í vikunni sem er að líða. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði ekki fyrr komist að niðurstöðu sinni – og þó ekki eindreginni – um tollvernd gagnvart íslensku málmblendi en að geltið gall í sölum Alþingis; látum samninginn hiksta, hættum að fella hann að íslensku regluverki, hefnum okkar á helvítis glæpahyskinu í Brussel – og tollum það sjálft í rjáfur!
Já, glæpamenn! Það var þá orðið sem formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins við Austurvöll kaus að kalla starfsbræður sína á meginlandi álfunnar. Einmitt, glæpamenn!
Meginerindi fallinna valdhafa á íslensku löggjafarsamkundunni var sumsé að kasta rýrð á EES-samninginn. Og stefið var einnig þetta; það eru til önnur ríki! Og þar var átt við að Íslendingur þyrftu ekki að reiða sig á nágrannalönd sín í Evrópu! Enda ku þar allt vera að brenna upp til kaldra kola!
Þetta er háskalegt gáleysishjal. Og það var einmitt einkar athyglisvert að hlusta annars vegar á hræðsluáróðurinn sem vall af titrandi vörum gömlu herraflokkanna, eða á yfirvegaðan málflutning forsætisráðherra þjóðarinnar sem hélt ró sinni og stillingu. Enda hefur komið á daginn að tilefnið var ekki til þess fallið að fara á taugum. Þessir tilteknu tollar hafa óveruleg, jafnvel engin, áhrif á Íslandi.
En það breytir ekki því að íslenskir einangrunarsinnar nota hvert einasta tækifæri sem gefst til að tala niður samband Íslands og Evrópu. Það er sem þeir óttist svo mjög eigin hnattstöðu að þeir fyllist kvíða og vanmætti þegar þeim er óvart litið austur um haf. Þaðan sé ekkert að hafa nema báknið eitt af bírókratíu og bölvanlegu regluverki. Þessir taugaveikluðu talsmenn afturhaldsaflanna mega ekki til þess hugsa að það falli á fullveldið heima fyrir, svo sem með alþjóðlegum samningum af hvaða tagi sem er, og því fari best á því að loka landinu og kasta lyklinum í löðrandi sjóinn sem blessunarlega aðskilur eyjuna frá öðrum löndum á kringlu jarðar.
Hræðsla og ótti. Það er þeirra pólitík. Neyðarleg nesjamennska.
„Já, glæpamenn! Það var þá orðið sem formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins við Austurvöll kaus að kalla starfsbræður sína á meginlandi álfunnar. Einmitt, glæpamenn!“
Hitt liggur fyrir – og er jafnt viðurkennt af fræðimönnum og fulltrúum atvinnulífsins á Íslandi – að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið er sá mikilvægasti sem Íslendingar hafa gengist undir frá því verslun og viðskipti fór að taka á sig fyllilega mynd hér á landi. Hann er beinlínis forsenda fyrir því að jafn framsækið og útflutningsdrifið hagkerfi og það íslenska er, fái þrifist og skapi arðsemi, trygga atvinnu og tilhlýðilegan hagvöxt. Samningurinn hefur búið til bestu útgáfu Íslands af sjálfu sér.
Allt raup í þá veru að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið sé ekki lengur sá sami og velflestir landsmenn hafa haldið í hálfan mannsaldur, er ekki einasta úr tengslum við veruleikann sem hér hefur blasað við frá því á miðjum tíunda áratug síðustu aldar, heldur er niðurrifstalið það arna ekkert nema aðför að inntaki samningsins; sjálfu fjórfrelsinu sem hefur hleypt slíkum þrótti í íslenskan efnahag að ekki verður jafnað við aðrar framfarir sem orðið hafa í íslensku þjóðlífi.
En staðan er líka þessi. Heimurinn er breyttur. Hann er óðum að breytast. Þess vegna er afar brýnt að standa vörð um stöðu okkar og samkeppnishæfni í viðsjálli veröld. Það gerum við ekki með öðrum þjóðum en þeim sem fylgja okkar að málum í mannréttindum, lýðfrelsi og frjálsum viðskiptum. Því að lokum snýst veruleiki okkar um að treysta það sem tekist hefur best hjá batnandi þjóð.
Þess vegna þurfum við að styrkja evrópska efnahagssamninginn eins og frekast er unnt. Hagnaður landsmanna á síðustu árum er kominn til af eins hindrunarlausum aðgangi að erlendum mörkuðum og hugsast getur. Langstærstan hluta hans, ríflega sjötíu af hundraði, er að finna á meginlandi Evrópu.
Við kjöftum þá hagsmuni ekki niður. Við berum þess heldur höfuðið hátt.