fbpx
Föstudagur 21.nóvember 2025
Fréttir

Áhyggjur af mengun og brostnum forsendum vegna stækkunar hesthúsasvæðisins á Selfossi – Bæjaryfirvöld segja skipulagið mjög skýrt

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 21. nóvember 2025 16:00

Hluti hesthúsasvæðisins á Selfossi en eins og sjá má er það ekki langt frá íbúðabyggð. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bæjarstjórn Árborgar hefur staðfest samþykkt skipulagsnefndar á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir hesthúsasvæðið á Selfossi en í því felst meðal annars stækkun svæðisins. Athygli vekur að í fundargerð er athugasemdum við deiliskipulagið svarað með nokkuð beinskeyttum hætti. Þær hafi snúist einkum um áhyggjur af lyktarmengun og nálægð svæðisins við væntanlega íbúðabyggð en tillagan gerir ráð fyrir að aðeins verði um 30-40 metrar á milli nýrra íbúðarhúsa og næstu hesthúsa. Fyrirtækið sem vinnur að byggingu íbúðanna segir forsendur fyrir verkefninu gerbreyttar. Skipulagsnefnd og bæjarstjórn segja hins vegar að nægilega hafi verið brugðist við athugasemdum og að landeigandi, lóðarhafar og íbúðareigendur á deiliskipulagssvæðinu hafi einfaldlega átt að gera sér grein fyrir að á aðalskipulagi komi skýrt fram að umrætt svæði sé skipulagt fyrir hesthús.

Hesthúsasvæðið á Selfossi er austast í bænum. Um nýja deiliskipulagið segir í fundargerð skipulagsnefndar að það byggi í megindráttum á núverandi fyrirkomulagi með áherslu á bættar reiðleiðir og þjálfunarsvæði. Á svæði til suðurs verði gert ráð fyrir nýjum lóðum og þannig fjölgi notendum innan hesthúsasvæðisins. Kröfur um bættan aðbúnað hesta og manna hafi aukist á undanförnum árum og muni skilmálar um byggingu nýrra húsa og breytingar á eldri húsum taka mið af því. Deiliskipulagið nái til alls hesthúsahverfisins, sem sé núverandi keppnis- og, hesthúsasvæði og stækkaðs hesthúsasvæðis, samtals um 27 hektarar. Síðan á að taka sjö hektara óbyggt svæði til viðbótar undir hesthúsasvæðið.

Einnig er gert ráð fyrir að keppnissvæðið í hesthúsabyggðinni verði stækkað. Keppnishöll verður byggð en einnig minni hús til þjálfunar og svæði er afmarkað fyrir áhorfendastúkur. Deiliskipulagið er samkvæmt fundargerð í samræmi við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036.

Lyktin

Nokkur fjöldi umsagna og athugasemda um deiliskipulagið fylgir fundargerð bæjarstjórnar. Til að mynda gerði Heilbrigðiseftirlit Suðurlands athugasemd við skilmála skipulagsins um taðþrær og förgun taðs.

Stjórn húsfélags í fjölbýlishúsi að Austurhólum, sem er um 250 metrum frá syðsta hluta hesthúsasvæðisins, gerði athugasemd við fyrirsjáanlega aukningu á umferð um svæðið í ljósi þess hversu mikið það verður stækkað. Einnig gerði stjórnin athugasemd við fyrirséða aukna lykt- og rykmengun sem myndi leggjast yfir fjölbýlishúsin við Austurhóla, í norðanátt.

Stjórn húsfélags í öðru fjölbýlishúsi við Austurhóla mótmælti fyrirhugaðri stækkun einnig en tiltók þó ekki nein sérstök atriði í sinni athugasemd.

Eigendur sumra hesthúsa á svæðinu gerðu einnig athugasemd við útfærslu tillögunnar og sögðu fyrirséð að umferð við hús þeirra myndi aukast verulega.

Fyritækið Fagraland sem vinnur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Dísastaðalandi skammt sunnan við hesthúsasvæðið gerði ítarlega athugasemd við tillöguna og sagði ljóst að fyrirhuguð stækkun hesthúsasvæðisins myndi rýra verðmæti eignanna sem til stendur að byggja en um er að ræða 300 íbúðir. Fram kemur í athugasemdinni að nýjar hesthúsalóðir verði aðeins um 30-40 metra frá íbúðarhúsum sem sé óásættanlegt. Lyktar- og loftmengun og ónæði frá hesthúsasvæðinu muni rýra lífsgæði íbúða í íbúðarhúsunum og augljóst sé að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Ekki vitað

Fagraland segir enn fremur að fyrirtækið hafi þegar látið teikna upp og hanna íbúðarhúsnæði á fjölmörgum lóðum sem liggi sunnan við hina fyrirhuguðu hesthúsabyggð með tilheyrandi kostnaði en nú séu forsendur fyrir því breyttar:

„Í ljósi þess að ekkert lá fyrir um slíka nálægð hesthúsabyggðar og nýrra lóða við lóðamörkin þegar undirbúningur hófst er ljóst að forsendur hafa breyst verulega frá því lagt var af stað í það verkefni.“

Í kjölfar athugasemdanna voru skilmálar deiliskipulagsins uppfærðir og meðal annars skerpt á ákvæðum um hvernig taðþrær skuli vera og ítrekað að taðinu skuli fargað utan svæðisins.

Áttu að vita

Í niðurstöðu meirihluta skipulagsnefndar sem bæjarstjórn tók undir segir að brugðist hafi verið við þeim umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti. Tillagan sé í takt við heimildir aðalskipulags sveitarfélagsins þar sem svæðið sé skilgreint sem hesthúsasvæði. Aðliggjandi landeigendum og lóðarhöfum hafi mátt vera ljós skilgreining svæðisins innan núgildandi og eldra aðalskipulags sveitarfélagsins.

Innan greinargerðar aðliggjandi deiliskipulags sé enn fremur vísað til þess að skilgreind íbúðarbyggð liggi sunnan hesthúsahverfisins og að gengið verði á viðkomandi opið svæði til sérstakra nota fyrir hesthúsasvæði til að stækka íbúðarsvæðið. Hlutaðeigandi landeiganda aðliggjandi lands hafi því verið vel ljóst um fyrirhugaða notkun svæðisins þegar lagt var fram deiliskipulag sem tekur til íbúðarbyggðarinnar. Ekkert í stefnumörkun aðalskipulags sveitarfélagsins gefi til kynna að viðkomandi svæði sé víkjandi eða að önnur landnotkun en hesthúsasvæði sé áætlað innan viðkomandi svæðis. Þetta hafi landeiganda, lóðarhöfum og íbúðareigendum innan deiliskipulagssvæðisins mátt vera ljóst við skipulagningu og gildistöku deiliskipulags viðkomandi íbúðarbyggðar sem liggi að hesthúsasvæðinu.

Auk þess bendir nefndin á að með gildistöku deiliskipulags sé útbúið verkfæri til að bæta úr ýmsum aðstöðumálum innan svæðisins svo sem er varði frágang taðþróa, lausafjármuni innan svæðisins, uppbyggingu grunninnviða o.fl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Meintur ofbeldismaður þarf áfram að sæta nálgunarbanni gegn fyrrum eiginkonu og dætrum þeirra

Meintur ofbeldismaður þarf áfram að sæta nálgunarbanni gegn fyrrum eiginkonu og dætrum þeirra
Fréttir
Í gær

SAFÍR20 ný fjármögnunarleið fyrir íbúðir á Orkureitnum

SAFÍR20 ný fjármögnunarleið fyrir íbúðir á Orkureitnum
Fréttir
Í gær

Hefur áhyggjur af skólaskyldunni og krefur menntamálaráðherra um svör

Hefur áhyggjur af skólaskyldunni og krefur menntamálaráðherra um svör
Fréttir
Í gær

Krafðist afhendingar gagna frá tíð Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra – Báru við þjóðaröryggi

Krafðist afhendingar gagna frá tíð Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra – Báru við þjóðaröryggi
Fréttir
Í gær

CCP streymir úr eldfjalli

CCP streymir úr eldfjalli