
Það er talað um að kannski verði bara eitt app í símanum sem gerir allt fyrir okkur. Bankarnir hafa fjárfest mikið í sínum öppum og munu áfram þurfa að gera það til að vera samkeppnishæfir. Þeir eru mjög smáir samanborið við erlenda banka og horfa á aukna samkeppni frá fjártæknifyrirtækjum. Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Markaðurinn - Jón Guðni Ómarsson - 7
Þú nefnir, þessar tækniframfarir og byltingu má kannski kalla það. Tæknin, hefur áhrif á ykkar samkeppnisumhverfi. Þið, íslenskir bankar eruð kannski varðir fyrir samkeppni erlendis frá. En, samkeppnin frá nýjum fjártæknilausnum, hún er í fullum gangi, er það ekki?
„Jú, heldur betur, og náttúrulega mjög gaman að sjá gerjunina þar. Það eru mörg bæði innlend fyrirtæki og svo sem erlendis líka sem við fylgjumst grannt með og höfum náttúrulega verið í samstarfi við nokkur þeirra. Og það er eitthvað sem maður, ef maður horfir svona fimm eða 10 ár fram í tímann, þá höldum við að það verði áfram mjög miklar breytingar og gerjun í því öllu saman.
Það er verið að tala um að eftir einhver ár verði bara eitt app í símanum. Þú bara talar við eitt app og það bara gerir hvað sem er, hvort sem er að leggja bílnum eða panta þér hárgreiðslu eða millifæra á reikningum.“
Já, svona personal assistant.
„Já, og þá er spurningin bara, hver verður með þetta app? En burtséð frá því, þá held ég út frá bankanum, við erum t.d. búin að fjárfesta mikið í öppunum okkar og gera þau eins vel og hægt er. En þar mun gervigreindin til dæmis koma inn í og auka væntanlega fjölbreytileika þannig að fólk geti skoðað mun fleiri hluti í gegnum appið, borið sig saman, hvort sem er til dæmis út frá fjárfestingum, borið sig saman við aðra og hlutabréfavísitölur og ýmislegt. Þannig að það verður mikil gerjun þarna og það er eitthvað sem bankar þurfa að halda áfram að fjárfesta í til þess að bara standast samkeppnina.“
Já, já. Íslensku bankarnir eru, eins og þú bendir réttilega á, þó að okkur finnist þeir vera stórir, þá eru þeir litlir.
„Heldur betur. Þessir stóru norrænu bankar eru kannski 20 sinnum stærri og þeir þykja mjög litlir á veraldarvísu.“
Það er auðvitað ákveðin samþjöppun í gangi á íslenskum bankamarkaði. Það er, það eru sameiningarviðræður í gangi. Það eru, þið, þið eruð að taka að, setja tryggingafélag inn í ykkar þjónustu.
„Já, við erum í sameiningarviðræðum við Skaga, sem er bæði með tryggingar og líka eignastýringu og fjárfestingarbankastarfsemi.“
Heldurðu að það þurfi að verða meiri sameiningar? Ef við segjum eftir svona þessa lotu sem núna er í gangi að það verði þrír meginbankar á Íslandi, Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki. Er nóg gert? Þurfa að verða frekari samningar.
„Það er erfitt að segja svona um alla framtíð. Þetta er allavega stórt skref. Hvað svo er í framtíðinni, það er erfitt að segja. Það eru einhverjir sem munu stækka og aðrir munu minnka og það verður bara áfram dýnamík í því. En svo er eitt líka sem þarf kannski að horfa til. Það hefur nú oft verið talað um það hvort að eigi að reyna að auka samstarf á milli banka um innviði. Bankarnir hafa náttúrlega lengi verið í samstarfi með RB um greiðslumiðlun og innlánakerfi og við höfum nú verið öfundaðir af mörgum löndum í kringum okkur af því. Það er náttúrlega ótrúlegt að Ísland hafi verið 1980 komið með greiðslur á sekúndum, sem sum lönd eru bara fyrst að fá í dag, liggur við. En með smæðinni er stundum líka gott að geta hreyft sig hratt þannig að það er eitt sem að mér finnst vert að skoða, hvort að sé hægt að fjölga þessum þáttum þar sem er hægt að eiga samstarf. Bankarnir saman og þá geta minni fyrirtæki líka hnotið þess. Það er eitthvað sem maður þarf bara að skoða mjög vel og í góðu samtali við Samkeppniseftirlitið, þannig að þetta sé eitthvað sem nýtist sem best.“