
Samkvæmt Daily Mail er Arsenal til í að hlusta á tilboð í þrjá leikmenn þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar.
Lundúnaliðið situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með fjögurra stiga forskot eftir ellefu umferðir, en það verður sennilega erfitt að styrkja liðið mikið fyrir átökin á seinni hluta leiktíðar eftir öflugan félagaskiptaglugga síðasta sumar.
Þrír gætu þó verið á förum. Gabriel Martinelli er stærsta nafnið af þeim. Brasilíumaðurinn er ekki með fast sæti í byrjunarliði Arsenal en spilar þó mikilvæga rullu. Félög í Sádi-Arabíu hafa áhuga og mun Arsenal skoða stór tilboð.
Ben White gæti einnig verið á förum. Varnarmaðurinn hefur aðeins byrjað einn deildarleik á tímabilinu og er félagið sagt opið fyrir tilboðum í Englendinginn, sem keyptur var frá Brighton á 50 milljónir punda árið 2021.
Ungstirnið Ethan Nwaneri gæti farið á láni í janúar til að fá meiri spiltíma. Hann hefur leikið 425 mínútur á tímabilinu en félagið vill tryggja að framþróun hans haldi áfram.