fbpx
Þriðjudagur 18.nóvember 2025
Fréttir

Bók lýsir illum aðbúnaði barna og starfsfólks á íslensku munaðarleysingjaheimili í Kenýa – „Hrein og klár lygi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 18. nóvember 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega kom út bókin Mzungu eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur og Simon Okoth Aora. Um er að ræða æsispennandi og óvenjulega frásögn af dvöl þriggja Íslendinga á munaðarleysingjaheimili í litlu þorpi í afríkuríkinu Kenýa. Sögusviðið virðist eiga sér samsvörun í munaðarleysingaheimili sem Íslendingur rekur í Kenýa, sér í lagi vegna þess að höfundurinn dvaldist um tíma þar ytra. Nánar verður vikið að því síðar í fréttinni.

Aðalpersóna bókarinnar, Hulda, er miðaldra kona, sem hefur stutt við rekstur umrædds heimilis og er komin þangað ásamt tveimur manneskjum öðrum til að verða að frekara liði í starfseminni, en helsta kappsmál hennar er að styðja ungar, heimilislausar mæður til mennta.

Heimilinu stýrir Íslendingurinn Skúli ásamt kenýskri eiginkonu sinni, Eveline, en Skúli þessi á raunar aðra eiginkonu á Íslandi. Heimilið virðist í fyrstu rekið af miklum krafti, kærleika og rausnarskap, en smám saman fara að renna tvær grímur á Huldu er hún verður áskynja um ýmislegt sem bláfátækt starfsfólk heimilisins og börnin sem þar eru vistuð þurfa að þola.

Kemur í ljós að starfsfólkið vinnur alla sjö daga vikunnar í um 16 klukkustundir á dag og það hýrist í illa förnu húsnæði. Börnin eru barin með priki, jafnvel þau yngstu. Meðal starfsfólks eru þrjár ungar mæður, hverra börn eru vistuð á heimilinu og þær fá nánast aldrei að hitta börnin sín. Á blaðsíðu 194 segir:

„Hann sagði henni næstum allt. Frá prikinu sem Evelin notaði til að berja jafnvel minnstu börnin á laun fyrir það eitt að gráta, frá sífelldum hótunum um brottrekstur eða fangelsisvist ef þau segðu frá aðstæðum sínum og meðhöndlun, frá því að Caroline, Monicu og Belindu væri meinað að hugsa um sín eigin börn og þrælað út á myrkranna á milli og gott betur en það. Að Belinda hefði á endanum sent dóttur sína til ættingja af því að barnið hefði verið svo vansælt yfir því að mega aldrei leita til móður sinnar.“

Einnig kemur fram að vanfærum stúlkum er vísað á götuna frá heimilinu enda segir Skúli að þau séu ekki að reka heimili fyrir kynóða unglinga.

Á blaðsíðu 219 er farið yfir það hvernig Monica, ein starfsstúlkan, er hýrudregin. Fyrir 16 tíma vinnu á dag fær hún hálf lágmarkslausn en af þeirri upphæð fer meirihlutinn í gagnslaus jurtalyf handa veiku barni hennar og í starfsmannasjóðinn.

Í bókinni kemur fram að forsvarsfólk heimilisins er duglegt að safna fé með því að vekja samúð með nauðstöddum börnum og birta jákvæðar myndir af uppákomum sem tengjast starfinu. Smám rennur upp fyrir Huldu að á bak við framhlið mannúðar og hjálpsemi leynist myrkur veruleiki misnotkunar, arðráns, vinnuþrælkunar og ofbeldis.

Á blaðsíðu 220 greinir bókari Skúla, Ochola, frá og útskýrir hvernig viðskiptamódel Skúla og Eveline virkar:

„Það væri einfalt og byggði á því að selja samúð. Því yngri og því veikari sem börn sem kæmu á heimilið, því betra. Teknar væru ótal myndir af aumustu börnunum strax við komu og gapandi eymdinni póstað á samfélagsmiðlum. Um líf og dauða nauðstaddra barna væri að tefla. Greiðsluupplýsingar fylgdu með hverri færslu og fyrirfram þakkir.

Skúli lét hins vegar alveg vera að segja frá unglingsstúlkunum sem vísað var á dyr vegna ótímabærrar þungunar innan veggja heimilisins. Slíkir vandræðagemsar voru ekki auglýsingavara og þar með ekki tekjulind. Burt með þær og þær skyldu skammast sín.“

Við þetta má bæta að Skúli þessi er oft grófur í tali og talar af mikilli lítilsvirðingu um fátæka heimamenn.

Þess má geta að bókin er ákaflega vel stíluð, lifandi, myndræn, spennandi og hugvekjandi. Þórunn hefur áður hlotið Íslensku bókmenntaverðlauninn fyrir ungmennabók sína Akam, ég og Annika. Ekki skal sagt mikið frekar frá Mzungu til að spilla ekki lestraránægjunni, fyrir utan að áður en yfir lýkur sýður upp úr á milli Huldu og þeirra Skúla og Eveline og reyna þau síðarnefndu að koma henni undir lás og slá með fráleitum kærum til spilltrar staðarlögreglu. Er það afleiðing af viðleitni Huldu til að frelsa ungar mæður af heimilinu og koma þeim til mennta.

Mikil samsvörun við veruleikann

Starfseminni sem hér er lýst svipar mjög til félagsins Björt sýn sem rekur munaðarleysingjahæli og skóla í Kenýa. Stofnandinn er Ólafur Halldórsson en hann stofnaði heimilið fyrir fé sem hann fékk í sanngirnisbætur frá íslenska ríkinu fyrir að hafa þolað ofbeldi sem nemandi í Landakotsskóla. Strax á fyrstu blaðsíðum Mzungu virðist Ólafur Halldórsson birtast þar ljóslifandi sem Skúli, en þar kemur fram að hann hafi stofnað heimilið fyrir sanngirnisbætur sem hann fékk, útliti hans er lýst og samsvarar það útliti Ólafs. Einnig kemur fram að Skúli hafi um tíma verið þungt haldinn af malaríu en árið 2022 greindi DV frá því að hann væri þungt haldinn af malaríu á fjórða stigi.

RÚV birti áhugavert viðtal við Ólaf í byrjun árs 2023 en þar segist hann hafa hlýtt köllun með stofnun munaðarleysingaheimilisins. „Það er víst kallað köllun. Nú veit ég hvað köllun er. Það er svona rödd í hausnum á manni sem yfirgnæfir allar hinar og segir: „Þú skalt hundur heita ef þú gerir ekkert í því,“ sagði Ólafur við RÚV.

Við sama tón kvað í viðtali Ólafs við Sölva Tryggvason árið 2023, en DV greindi frá viðtalinu, sjá hér.

Seint í bók Þórunnar og Simons, Mzungu, segir Hulda hins vegar:

„Mér varð hugsað til blaðaviðtals þar sem Skúli hafði drjúgur haldið því fram að sannleikur, heiðarleiki og ekkert ofbeldi væri gildi heimilisins. Engar mútur. Fávitinn ég hafði einfaldlega látið glepjast af fölskum fyrirheitum. Ég hafði fallið fyrir svindlútgáfu af manni.“

Ræðir eingöngu um verkið á bókmenntalegum forsendum

DV bar þessi sláandi líkindi undir höfundinn, Þórunni Rakel. Hún segist hafa skrifað verkið af heilindum en vilji ekki ræða um verkið á fréttalegum forsendum:

„Ég skrifaði þessa bók af heilindum en hef ákveðið, að sinni, að ræða um verkið á bókmenntalegum nótum en ekki fréttnæmum.“

„Við skildum ekki sem vinir“

DV náði sambandi við Ólaf Halldórsson, stofnanda heimilisins, og staðfestir hann að Þórunn Rakel hafi dvalist á heimilinu fyrir tveimur árum ásamt tveimur öðrum Íslendingum, rétt eins og lýst er í bókinni. DV rakti fyrir honum helstu ásakanirnar á hendur forsvarsfólki heimilisins í bókinni. Segir hann þar um uppspuna að ræða.

„Hún missti samstundis allan fókus á börnunum og lét tvær „matrónur“ ljúga sig fulla. Við skildum ekki sem vinir. En allt þetta sem þú nefnir hér er hrein og klár lygi, eða öllu heldur hreinn og klár skáldskapur, enda skáldsaga. Það hafa komið hér tugir Íslendinga og sumir verið í vikur og mánuði, sem öll geta vitnað um það,“ segir Ólafur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Segja Trump hafa neyðst til að taka u-beygju varðandi Epstein-skjölin en sé alls ekki sáttur

Segja Trump hafa neyðst til að taka u-beygju varðandi Epstein-skjölin en sé alls ekki sáttur
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

FÍF boðar til yfirvinnubanns

FÍF boðar til yfirvinnubanns
Fréttir
Í gær

Er hætta á að netglæpamenn blekki þig? – Taktu netsvikaprófið

Er hætta á að netglæpamenn blekki þig? – Taktu netsvikaprófið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Færsla um tekjur öryrkja vekur úlfúð – „Er þetta ekki ágætis innkoma?“

Færsla um tekjur öryrkja vekur úlfúð – „Er þetta ekki ágætis innkoma?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var áður einn helsti stuðningsmaður Trump en fær nú að kenna á fúkyrðaflaumi

Var áður einn helsti stuðningsmaður Trump en fær nú að kenna á fúkyrðaflaumi