
Þrátt fyrir að farið sé að hægja á hagkerfinu hafa innlán aukist til muna á þessu og síðasta ári. Erlendis eru hlutabréfamarkaðir á siglingu og í Þýskalandi er verið að keyra hagvöxt í gang með hergagnaframleiðslu. Íbúðalánin eru að fara aftur í gang en markaðurinn er hægur. Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins.
Markaðurinn - Jón Guðni Ómarsson - 4
Eftir þetta hlé sem varð á íbúðalánum, er ekki allt brjálað að gera?
„Nei, ég myndi nú ekki segja það. Það er náttúrulega bara að fara aðeins af stað. Markaðurinn er náttúrulega mjög rólegur þessa dagana þannig að við höfum oft séð mun meira líf á þessum markaði. En það var náttúrlega nokkuð af viðskiptavinum sem voru að bíða eftir þessu til að geta klárað kaup þannig að það er náttúrlega verið að tala við það fólk núna og vonandi klárast það bara fljótt og vel.“
En fólk kvartar undan því að það hafi jafnvel verið komið með greiðslumat í gamla kerfinu og nú þurfi að fara í gegnum allt frá grunni.
„Já, við reyndum einmitt að sníða hjá okkur þannig að það þyrfti ekki. Það eru náttúrlega sömu vextir og voru fyrir þannig að það á ekki að vera vandamál.“
Nei, þannig að þið hafið reynt að bregðast við því.
„Já.“
Það er greinileg kólnun í íslenska hagkerfinu. Það fór heilt flugfélag á hliðina. Það eru tveir þriðju af álveri sem eru ekki í rekstri og það er eitt og annað. Það er óvissa í heiminum, í alþjóðamálum. Bankarnir hafa verið að skila mjög góðri afkomu að undanförnu og hún hefur ekki verið síðri eftir að verðbólgan fór af stað. Hvernig sérðu þetta ef þú horfir aðeins fram á veginn? Erum við, erum við að sigla inn í tímabil þar sem að þið þurfið að fara að taka virkara tillit til útlánahættu, til tapaðra útlána og slíks?
„Í bankarekstri er náttúrlega oft þannig að þú ert bara með mörg góð ár þar sem gengur vel og það er gangur í efnahagslífinu og þá er lítið um útlánatöp. Svo geta náttúrlega komið ár inn á milli þar sem bankar og aðrir lánendur lenda í því. Þegar maður horfir núna fram á veginn, svona almennt séð, bera okkar lántakendur sig nokkuð vel. En þessi atriði sem þú nefnir, það er að kólna hérna í hagkerfinu. Á sama tíma sjáum við á erlendum mörkuðum einhvern veginn töluverða uppsveiflu. Bandarískir hlutabréfamarkaðir og svo er verið að keyra svolítið í gang hagvöxt í til dæmis Þýskalandi, bara með vopnaframleiðslu sem er dálítið athyglisvert. Það var búið að vera í niðursveiflu, efnahagslífið í Þýskalandi, síðustu tvö ár og er að komast í gang aftur núna á þessum grunni.
Alþjóðlega er bara þokkalegt útlit hvað það varðar. Þegar ég hitti útlendinga og er spurður út í efnahagslífið, þá segi ég: Það eru engir flugeldar en heldur ekki kannski að við búumst við einhverju miklu bakslagi. Það má segja að það sé bara nokkuð rólegt umhverfið hvað það varðar, svona þegar maður horfir út frá hagvexti og öðru slíku. En við náttúrlega fylgjumst grannt með til dæmis lánabókinni hjá okkur og það eru ekki enn þá mikil merki um það að það sé að hægjast mikið á. Svo er hitt líka að það er gríðarlega sterk lausafjárstaða í kerfinu. Innlán til dæmis jukust um 20% á síðasta ári hjá einstaklingum hjá okkur og hafa aukist um tæplega 10% á þessu ári. Að hluta til byggist þetta á því að það er hátt vaxtastig og fólk fær vexti á innistæður. En það er allavega töluvert mikið af fjármunum til staðar til að fjárfesta. Það má segja að það sé jákvætt og náttúrulega mikil innviðafjárfesting fram undan á Íslandi.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.