

„Þarna held ég að minn gamli góði vinnustaður hafi villst af leið,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, eiginkona þingmannsins Snorra Mássonar, en Vísir neitar að taka niður mynd af tveggja ára syni hjónanna í frétt þar sem hugmyndir Snorra um áhrif af fjölgun innflytjenda á Íslandi eru sagðar vera daður við rasíska samsæriskenningu.
Með fréttinni er birt mynd af Snorra á Landsþingi Miðflokksins og tveggja ára syni hans. Snorra mislíkar mjög þessi myndbirting af syni hans, eins og DV hefur greint frá.
Nadine hefur birt færslu um málið á Facebook-síðu sinni, þar sem kemur fram að Vísir hefur neitað að skipta um mynd með fréttinni. Hún segist ekki geta sætt sig við að mynd af syni hennar sé birt sem hluti af hvassri pólitískri gagnrýni. Hún segist ekki minnast þess að börn á leikskólaldri hafi áður þurft að þola myndbirtingar undir pólitískum fréttum um foreldra þeirra. Nadine skrifar:
„Í morgun birtist flennistór mynd af tveggja ára gömlum syni mínum á Vísi.is undir fyrirsögninni: „Byrjað að daðra við rasíska samsæriskenningu.“
Ég er ýmsu vön sem eiginkona stjórnmálamanns og þekki vel hve óvægin umræðan getur orðið og hef almennt litið svo á að það sé bara hluti af starfinu.
En ég er líka móðir og er ekki undir nokkrum kringumstæðum tilbúin að sitja undir því að mynd af syni mínum sé teflt fram sem hluta af mjög hvassri pólitískri gagnrýni. Honum virðist teflt fram sem smellibeitu og att út á foraðið sem aðila að einhverju sem hann hvorki skilur né átti nokkurn þátt í að skapa.
Almennt hafa mér fundist það verðmæt lífsgæði í okkar litla samfélagi að opinberar persónur þurfi þrátt fyrir allt ekki að fela börn sín frá opnum viðburðum eða samfélagsmiðlum til að tryggja að myndir af þeim verði ekki notaðar gegn foreldrunum í pólitískum tilgangi. Það eru ömurlegar fréttir ef það er liðin tíð.
Ég hef óskað eftir því við Vísi að önnur mynd fylgi fréttinni. Þau hafa svarað því neitandi með þeim rökum að faðirinn hafi sjálfur birt myndina. Það var auðvitað í allt öðru samhengi.
Þarna held ég að minn gamli góði vinnustaður hafi villst af leið. Að minnsta kosti man ég ekki sjálf til þess að börn á leikskólaaldri hafi hingað til þurft að þola myndbirtingar undir hápólitískum fréttum um foreldra þeirra og þannig orðið hluti af fréttinni.“
Miklar umræður eru undir færslu Nadínar Guðrúnar og fordæma margir myndbirtinguna.