

Axel Disasi hefur sést æfa með aðalliði Chelsea í landsleikjahlénu þrátt fyrir að vera hluti af svokallaðri „sprengjusveit“ félagsins.
Frá því í sumar hefur varnarmaðurinn, líkt og nokkrir aðrir leikmenn, verið útilokaður frá aðalliðsæfingum á meðan framtíð þeirra hefur verið óljós.
Sumir, eins og Alfie Gilchrist og Lesley Ugochukwu, fengu lán eða félagaskipti, en Disasi ekki.
Því hefur hann æft sér, meðal annars með Raheem Sterling, sem þénar 325 þúsund pund á viku. Enzo Maresca hefur jafnframt gefið í skyn að engin leið sé aftur inn í hópinn.
Nú virðist hins vegar breyting hafa orðið, því 27 ára Frakkinn, sem var á láni hjá Aston Villa á síðasta tímabili, hefur sést æfa með aðalliðinu í Cobham.
Myndir sýna Disasi elta framherjann Liam Delap, og stuðningsmenn Chelsea bentu strax á að varnarmaðurinn gæti verið á leið aftur í hópinn.