
Mariam var þekkt í heimalandi sínu og með um 90 þúsund fylgjendur á TikTok.
Í frétt Daily Mail segir að hún hafi verið numin á brott í borginni Tonka í norðurhluta Timbuktu-héraðs og tekin af lífi á torgi í borginni þann 7. nóvember síðastliðinn. Hafa fréttir af dauða hennar vakið mikla hneykslun í Malí þar sem herforingjastjórn fer með völd.
Mariam var þekkt fyrir að styðja opinberlega við herforingjastjórnina og klæddist hún meðal annars einkennisbúningi hans í myndböndum sínum. Hún er sögð hafa verið numin á brott frá markaði í borginni af nokkrum vopnuðum mönnum á sama tíma og hún var í beinni útsendingu á TikTok.
Hún var flutt á Sjálfstæðistorgið, eitt þekktasta kennileiti borgarinnar, samkvæmt bróður hennar sem segist enn fremur hafa verið neyddur til að horfa á þegar hún var skotin til bana.
Í fréttum erlendra miðla kemur fram að Mariam hafi að mestu birt létt myndbönd sem fjölluðu um samfélagsmál og hversdagslegar áskoranir í óstöðugu landi.