
Rússnesk hjón á fertugsaldri, sem voru viðriðin vafasöm viðskipti með rafmyntir, voru numin á brott í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og síðan myrt.
Roman Novak og eiginkona hans Anna voru ginnt á fund með mögulegum viðskiptavini í Dubai, þar sem þau voru búsett ásamt börnum sínum, í byrjun október. Um var að ræða gildru sem hjónin gengu lóðbeint í og voru þau numin á brott. Mannræningjarnir kröfðust aðgangs að rafrænum veskjum í eigu Novak en þar gripu þeir í tómt.
Kröfðust mannræningarnir í kjölfarið lausnargjalds fyrir hjónin en þegar sú fjárhæð fékkst ekki greidd myrtu mannræningjarnir hjónin með köldu blóði og losuðu sig við lík þeirra í nærliggjandi eyðimörk. Þá voru símar hjónanna sendir í ferðalag til þess að villa um fyrir rannsakendum en síðasta merkið frá þeim barst í Höfðaborg í Suður-Afríku.
Morðingjarnir, sem voru þrír talsins, hafa verið handteknir og verða þeir að öllum líkindum framseldir til Rússlands. Þá eru að minnsta kosti fimm aðrir einstaklingarnir taldir hafa komið að skipulagingu glæpsins.
Roman Novak hafði þó ýmislegt á samviskunni. Árið 2020 hlaut hann sex ára fangelsisdóm fyrir fjársvik. Hafði hann platað fjárfesta til þess að leggja fé í nýja greiðslulausn sem hann kvaðst hafa þróað.
Safnaði hann háum fjárhæðum, fleiri milljörðum, í hlutafé frá fjárfestum en síðan lét hann sig hverfa með fjármunina og skyldi fyrirtækið eftir í rjúkandi rúst. Voru því margir sem hugsuðu Novak þegjandi þörfina.
Þó ekkert hafi verið staðfest í þeim efnum er talið líklegt að einhver þeirra sem var svikin af Novak á sínum tíma hafi komið að morðum hjónanna.