

Sumir eru hins vegar komnir með nóg af löngu klappi og finnst það tilgerð. Málið var til umræðu á Reddit í gærkvöldi.
“Er ég sá eini sem finnst þetta endalausa klapp eftir tónleika Sinfó vera svo mikil tilgerð? Ég kann vel að meta tónlistina en mér finnst eitthvað bogið við að ætlast til þess að allir klappi í tíu mín eftir dagskrána meðan „koma og fara af sviðinu“ seremónían fer fram,” sagði einn netverji.
Nokkrir voru sammála og sagðist einn vera kominn með nóg af öllu þessu klappi við ýmis tilefni.
“Ég er með þér. Mér finnst klappað allt of mikið og lengi við öll möguleg tækifæri. Einhver að halda kynningu fyrir 15 manns í bekk… og það er klappað áður en einhver byrjar kynninguna sína… og svo eftir kynninguna, og svo fyrir þá næstu, og eftir þá kynningu… kommon.
Eða í sjónvarpsþáttum þar sem er stoppað til að klappa fyrir og eftir hvern einasta gest og eftir hvern einasta brandara, amk 20 prósent af þættinum er fólk að klappa. Ég hef ekki tíma og nennu í allt þetta klapp, sérstaklega þegar það er fyrir engu.“
Það voru þó alls ekki allir sammála og sögðu klappið vel verðskuldað.
„Úfff, gæti ekki verið meira ósammála. Vinnan og listin sem fer í að halda svona tónleika er alveg ótrúleg og það eru forréttindi að við höfum aðgang að svona mikið af stórkostlegum tónleikum á þessu litla skeri. Þetta er vissulega ákveðið ritúal en fyrir minn skammt þá elska ég þetta ritúal og yrði mjög leiður ef það myndi hætta,“ sagði einn.
Annar tók undir:
„Myndi velja næst sæti sem leyfir þér að fara bara ef þér leiðist þessi seremónía, hún er algjörlega hluti af prógramminu og verður það alltaf.
Eða skoða bara hversu ógeðslega mikil vinna er í þessu, hverjir höfðu fyrir þessu og hversu merkilegt þetta er, þá gætirðu farið að kunna að meta það að klappa fyrir þeim sem voru að bjóða þér upp á þetta. Ef það klikkar, veldu bara sæti sem leyfir þér að hoppa beint út – sleppur við crowdið líka.“