
Þetta er niðurstaða kviðdóms í máli sem hún höfðaði gegn skólayfirvöldum í Virginíu í Bandaríkjunum.
Atvikið átti sér stað þann 6. janúar 2023 þegar nemandi hennar gekk upp að henni þar sem hún sat í skrifborðsstól og skaut hana tvisvar með skammbyssu.
Abby höfðaði mál þar sem skólastjórnendum mátti vera ljóst að hætta stafaði af drengnum og vitað væri að hann hefði komið með byssu í skólann þennan dag.
Sjá einnig: Kennari lýsir augnablikinu þegar hún var skotin af sex ára nemanda sínum
Zwerner var skotin í brjóstið og handlegginn og var hún flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús þar sem hún dvaldi í tvær vikur. „Ég hélt ég hefði dáið. Ég hélt ég væri annað hvort á leið til himna eða komin þangað,“ sagði hún á dögunum um það sem flaug í gegnum huga hennar eftir skotárásina.
Málið vakti mikið umtal á sínum tíma og veltu margir fyrir sér hvernig sex ára barni dytti í hug að koma með byssu í skólann og skjóta kennarann sinn.
Í málinu var aðstoðarskólastjóranum, Ebony Parker, stefnt en hann mun hafa fengið nokkrar ábendingar þess efnis, í aðdraganda árásarinnar, að nemandinn væri með byssu í skólatöskunni sinni. Þrátt fyrir það var ekki brugðist við, byssan ekki fjarlægð eða lögreglu gert viðvart fyrr en eftir árásina.
Móðir hins sex ára drengs var dæmd í fjögurra ára fangelsi vegna málsins en nemandinn lýsti því að hann hefði náð í byssuna úr skúffu á heimili móður sinnar.
Í frétt AP kemur fram að búist sé við að Virginia Risk Sharing Association, tryggingasjóður skólayfirvalda á svæðinu, greiði skaðabæturnar í málinu. Parker mun fara fyrir dóm síðar í þessum mánuði, ákærð fyrir brot sem varða meðal annars vanrækslu í starfi.