
Þegar lögregla kom á vettvang fann hún hina 32 ára María Florinda Rios Perez de Velasquez, á verönd hússins með skotsár í höfuðið, samkvæmt frétt ABC News.
Að sögn lögreglu skaut húsráðandi einu skoti í gegnum hurðina eftir að María reyndi að opna útidyrahurðina með lykli. Hún var hins vegar á röngum stað og taldi húsráðandi að um innbrotstilraun væri að ræða.
Lögreglu barst neyðarsímtal klukkan 6:49 um mögulegt innbrot en síðar kom í ljós að engin vísbending var um slíkt. Segir lögregla að María og vinnuhópur hennar hafi farið á rangan stað.
Eiginmaður hennar, Mauricio Velasquez, sem starfaði með henni, segir að þau hjónin hefðu unnið við ræstingar í um sjö mánuði. Mauricio var við hlið hennar þegar skotinu var hleypt af og segir hann að hún hafi látist í fangi hans. Þau hjónin áttu fjögur börn og er það yngsta aðeins ellefu mánaða.
Lögreglan segir rannsóknina enn í gangi og að unnið sé með saksóknaraembætti Boone-sýslu að því að ákveða hvort húsráðandinn verði ákærður.
Samkvæmt lögum í Indiana er fólki heimilt að beita ýtrustu ráðstöfunum til að verja öryggi sitt á eigin heimili og er manndráp þar með talið.
„En sá sem beitir slíku afli verður að hafa réttmæta ástæðu til að ætla að það sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir eða binda enda á yfirstandandi innbrot eða árás á heimili sitt,“ segir saksóknari í málinu.