

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um saksóknara hjá embættinu, konu, sem kærð var af fyrrverandi eiginmanni sínum fyrir húsbrot, eignaspjöll, þjófnað og brot á barnaverndarlögum. Sigríður segir umfjöllun Morgunblaðsins ekki að öllu leyti rétta og að hún beri fullt traust til saksóknarans.
Starfsmaður ríkissaksóknara sakaður um húsbrot, eignaspjöll og þjófnað
Yfirlýsing Sigríðar er svohljóðandi:
„Vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um málefni sem tengjast saksóknara við embætti ríkissaksóknar telur ríkissaksóknari nauðsynlegt að leiðrétta nokkur atriði:
Saksóknarinn sem um ræðir játaði ekki brot og dró því ekki játninguna til baka. Samantekt lögreglu, sem Morgunblaðið er væntanlega með undir höndum, er röng hið rétta kemur fram í upptöku lögreglu af skýrslutökunni.
Saksóknarinn fór í veikindaleyfi í kjölfar þeirra atvika sem um ræðir, en atvikin áttu sér stað fyrir þremur árum. Viðkomandi flutti ekki mál fyrir dómstólum á meðan á veikindaleyfinu stóð.
Kærumál vegna ætlaðra brota saksóknarans voru tekin til meðferðar af lögreglu og ákæruvaldi án allrar aðkomu undirritaðrar, enda um vanhæfi að ræða af minni hálfu til meðferðar kærumáls sem varðar starfsmann embættisins. Rannsókn málanna var hætt og var málunum lokið á þann hátt.
Ríkissaksóknari ber fullt traust til saksóknarans sem um ræðir.“