
Maður sem grunaður er um kynferðisbrot í félagi við annan mann, nauðgun og stafrænt kynferðisbrot hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi farbann til 2. febrúar 2026.
Í greinargerð Héraðssaksóknara segir svo um málsatvik:
„Héraðssaksóknari hefur til meðferðar mál er varðar kynferðisbrot tveggja einstaklinga, þ.á.m varnaraðila, framin í félagi í ágúst 2024. Rannsókn málsins telst lokið oggaf embætti héraðssaksóknara út ákæru í málinu þann 27. febrúar 2025 og var málið þingfest 2. apríl s.l. Við þingfestingu málsins óskaði varnaraðili eftir fresti til þess að taka afstöðu til sakargifta þar sem til stæði að dómkveðja matsmann til þess að meta sakhæfi og geðrænt heilbrigði hans. Í kjölfar þess að undirmat lá fyrir var þess beiðst af hálfu héraðssaksóknara að fram færi yfirmat. Samkvæmt niðurstöðu yfirmats sem framkvæmt var af tveimur geðlæknum er það talið ólíklegt að refsing muni bera árangur í máli varnaraðila, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Mál varnaraðila var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness 29. október s.l. þar sem hann tók afstöðu til sakargifta, en hann játaði skýlaust þá háttsemi sem honum er gefið að sök samkvæmt ákæru. Þó liggur fyrir að ágreiningur er uppi í málinu um hvort að varnaraðili skuli sæta refsingu vegna brota sinna og mun þar af leiðandi fara fram aðalmeðferð í byrjun desember n.k.“
Í lagarökum héraðssaksóknara í málinu kemur fram að maðurinn er af erlendum uppruna og hugði á ferðalag frá landinu í desember í fyrra, en þá ætlaði hann að dveljast í langan tíma ásamt fjölskyldu sinni í upprunalandi þeirra.
Telur Héraðssaksóknari að hætta sé á að maðurinn reyni að komast úr landi og koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Héraðssaksóknari krafðist farbanns yfir manninum til 1. maí á næsta ári en Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði hann í farbann til 2. febrúar.
Landsréttur hefur núna staðfest þann úrskurð.
Sjá nánar hér.