fbpx
Laugardagur 01.nóvember 2025
Fréttir

Lögreglumaður á vakt í Eyjum skipti sér af ágreiningi sem var ekki lögreglumál – Persónulega tengdur öðrum aðilanum

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 31. október 2025 19:00

Lögreglan í Vestmannaeyjum Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nefnd um eftirlit með lögreglu komst nýlega að þeirri niðurstöðu að vísbendingar væru uppi um ámælisverða hegðun lögreglumanns í Vestmannaeyjum í starfi. Var lögreglumaðurinn á vakt þegar hann hafði afskipti af ágreiningi fyrrverandi kærustupars um yfirráð yfir bifreið. Vísar nefndin til þess að ákveðin tengsl eru til staðar á milli lögreglumannsins og umrædds kærasta og segir jafnframt að um marg bendi til að um hafi verið að ræða mál sem ekki hafi verið í verkahring lögreglu að hafa afskipti af.

Í ákvörðun nefndarinnar segir að hinn aðilinn að ágreiningnum, kærastan, hafi lagt fram kvörtun vegna framgöngu lögreglumannsins. Sagði hún atvikið hafa átt sér stað í júní síðastliðnum. Lögreglumaðurinn hafi stöðvað hana úti á miðri götu og öskrað á vinkonu hennar að hún mætti ekki taka samtal þeirra upp og ætti að sýna honum símann sinn. Hann hafi einnig hótað henni því að ef hún skilaði ekki umræddri bifreið til fyrrum kærasta og sambýlismanns síns yrði hún handtekin.

Lögreglumaðurinn og fyrrum kærastinn eru persónulega tengdir á einhvern hátt en hver þau tengsl nákvæmlega eru hefur verið afmáð úr ákvörðun nefndarinnar.

Gerði konan athugasemd við að lögreglumaðurinn hefði beitt valdi sínu með þessum hætti vegna tengsla hans við fyrrverandi kærasta og sambýlismann hennar og hafi meinað vinkonu hennar að taka samtal þeirra upp.

Bara tveir

Nefndin óskaði eftir skýringum frá lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum vegna kvörtunar konunnar.

Sagði lögreglustjórinn að lögreglumaðurinn hafi ekki verið með kveikt á búkmyndavél sinni en um hafi verið að ræða verkefni sem flokkaðist undir aðstoð við borgarana. Parið fyrrverandi hafi greint á um yfirráð yfir bifreiðinni en hún sé í eigu annars aðilans, kærastans sem sé tengdur lögreglumanninum. Tilkynning hafi borist og lögreglumaðurinn hafi verið varðstjóri á vakt og einn annar lögreglumaður, sem var í sumarafleysingum, hafi verið með honum á vaktinni. Þeir hafi báðir farið á staðinn og þar sem þeir hafi aðeins verið tveir á vakt hafi ekki verið mögulegt að senda einhvern annan en umræddan lögreglumann á staðinn.

Kom enn fremur fram í svörum lögreglustjórans að það hefði verið systir þessa fyrrum kærasta og sambýlismanns konunnar, sem lagði kvörtunina fram, sem hefði fyrir hönd bróður síns óskað eftir aðstoð lögreglu við að endurheimta bifreiðina.

Ekki lögreglumál

Í niðurstöðu nefndar um eftirlit með lögreglu er minnt á ákvæði laga um að þeir sem fari með lögregluvald megi ekki rannsaka mál ef þeir séu vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum. Vanhæfi sé til staðar ef uppi séu aðstæður þar sem draga megi, með réttu, óhlutdrægni viðkomandi í efa.

Nefndin segir ljóst af kvörtun konunnar og gögnum málsins að um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining á milli konunnar og fyrrum sambýlismanns hennar um afnotarétt ökutækis. Leiki því vafi á hvort það hafi verið í verkahring lögreglu að hafa afskipti af málinu í umrætt sinn. Þá sé ekki unnt að útiloka að tengsl umrædds lögreglumanns við þennan fyrrum sambýlismann konunnar hafi haft áhrif á afskipti lögreglumannsins af málinu.

Telur nefndin að með hliðsjón af tengslum lögreglumannsins við fyrrum sambýlismanninn og tilefni afskipta hans, sem hafi verið einkaréttarlegur ágreiningur á milli aðila, að uppi séu vísbendingar um mögulega ámælisverðar starfsaðferðir lögreglumannsins við þessi afskipti.

Lýkur nefndin málinu með því að senda það til þóknanlegrar meðferðar til lögreglustjórans í Vestmannaeyjum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Milljónaráðgjafinn Þórunn tórði ekki lengi hjá ríkislögreglustjóra – Glænýjum ráðningasamningi sagt upp

Milljónaráðgjafinn Þórunn tórði ekki lengi hjá ríkislögreglustjóra – Glænýjum ráðningasamningi sagt upp
Fréttir
Í gær

Dramatík í bresku konungsfjölskyldunni: Andrés sviptur prinstitlinum

Dramatík í bresku konungsfjölskyldunni: Andrés sviptur prinstitlinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kjartan vill einkunnir í tölustöfum – „Almenningur skilur ekki bókstafakerfið og vill ekki sjá það“

Kjartan vill einkunnir í tölustöfum – „Almenningur skilur ekki bókstafakerfið og vill ekki sjá það“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ökuferð breyttist í martröð skammt frá Hvalfjarðargöngum

Ökuferð breyttist í martröð skammt frá Hvalfjarðargöngum