

Richard Agbasoga, leikmaður Ormskirk West End í ensku utandeildinni og starfsmaður breska heilbrigðiskerfisins, hlaut höfuðkúpubrot þegar ráðist var á hann af áhorfendum í leik gegn Calci FC á dögunum.
Samkvæmt Liverpool Echo réðust allt að tólf áhorfendur inn á völlinn eftir atvik þar sem samherji Agbasoga var skallaður í kjölfar harkalegrar tæklingar. Agbasoga reyndi að verja félaga sinn og varð þá fyrir alvarlegri árás.
Þessi 27 ára gamli leikmaður, sem er hjúkrunarfræðinemi frá Gana og vinnur tímabundið innan breska heilbrigðiskerfisins, liggur á sjúkrahúsi með brot á höfuðkúpu við vinstra eyra og bíður frekari niðurstaðna um hugsanlegan sjón- og heyrnarskaða.
Agbasoga mun ekki geta unnið næstu tólf vikurnar og félagið hefur sett af stað fjáröflun til að styðja hann á meðan hann jafnar sig. Rannsókn stendur yfir, en þjálfari Agbasoga segir hann algjöran öðling.