fbpx
Miðvikudagur 29.október 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg

Eyjan
Miðvikudaginn 29. október 2025 06:00

Mynd/GVA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Okkur er orða vant, Íslendingum öllum, þegar við í dag enn horfumst í augu við afleiðingar miskunnarlausra náttúruhamfara. En um leið finnum við hvað við erum nákomin hvert öðru. Hve þétt við stöndum saman þegar raunir ber að höndum. Við erum nú hverja stund með hugann hjá þeim sem hafa orðið fyrir þungum raunum. Sorg þeirra er okkar sorg.“ sagði Vigdís Finnbogadóttir þegar hún ávarpaði þjóðina eftir hörmungarnar á Flateyri í október 1995.

Þá var ég sex ára, agnarsmá og saklaus sál. Stödd á Flateyri. Grunlaus um það hversu miklu nóttin örlagaríka myndi breyta. Ég á sterkar minningar þar sem ég vakna við það að rafmagnið var farið. Það var svo sem vanalegt. En þarna var eitthvað meira að gerast.

Nóttin sem öllu breytti

Ég lá áfram í vatnsrúmi foreldra minna og heyrði erilinn frammi. Það var eitthvað skrýtið í loftinu. Fólk að koma inn og fólk að fara. Fólk að koma inn og gráta. Fólk að koma inn og skipta um föt. Mamma í símanum. Allt kalt, allt blautt, allt vonlaust. Ég man eftir því að hafa verið borin út úr húsinu okkar sem var ofarlega á eyrinni seinna um daginn og flutt í hús sem var neðar. Á öruggari stað. Ef slíkur staður var til á þessum tímapunkti. Þangað kom stórfjölskyldan og sameinaðist í djúpstæðri sorg. Sorg sem sex ára stelpa skildi ekki. En fann samt sterkt. Þetta var lítið rautt hús sem ég hafði aldrei áður komið inn í, og hef líklega aldrei farið inn í síðan. En þangað fórum við til að finna skjól. Andrými.

Barnið í miðri óreiðu

Í húsinu voru margar VHS spólur sem sex ára barni fannst spennandi. Ég man eftir Dumb and Dumber hulstri sem ég grandskoðaði, liggjandi á gólfinu. Á meðan fullorðna fólkið grét í bakgrunni. Þessir menn framan á spólunni voru svo furðulegir eitthvað.

Ég man eftir kvöldfréttunum. Fjölskyldan sat öll í stofunni og fylgdist með. Þar birtust myndir af þeim sem fórust og var enn saknað. Þá grétu allir. Svo sárt. Ég stóð og horfði á. Skildi ekkert en sá sársaukann. Svo birtust vinir mínir sem voru um borð í varðskipi. Komnir til Reykjavíkur. Hvers vegna voru þau þar? Myndi ég sjá þau aftur?

Reykjavíkurdvölin

Í næsta minningarbroti erum við fjölskyldan á leið til Reykjavíkur með flugi. Það var framandi fyrir mig og eiginlega smá spennandi. Mátti mér finnast það? Reykjavík var stórborg fyrir litla þorpsbúann. Allt svo stórt og mikil umferð. Ég man að við fórum í Rauða krossinn, þar var hægt að fá áfallahjálp. Þar var barnahorn með leikföngum og sjónvarpi. Þar sá ég nokkra vini mína frá Flateyri. Það var skrýtið að hitta þau í Reykjavík. En þar fengum við að horfa á Konung Ljónanna í fyrsta skipti. Við horfðum saman á myndina á meðan fullorðna fólkið grét í faðmlögum. Svo dó Múfasa í myndinni. Eins og allt fólkið á Flateyri hugsaði ég.

Ég man að ég fékk að mæta í Austurbæjarskóla. Í minningunni var ég þar í heilan vetur. En ætli það hafi ekki frekar verið ein vika. Ég man að ég eignaðist rauða og gráa Lion King peysu sem mér fannst flottust í heimi. Í Reykjavíkurdvölinni eignaðist ég loksins gæludýr. Páfagaukurinn Kíkí fylgdi okkur heim til Flateyrar, þegar við snerum aftur heim fyrir jólin.

Aftur heim, en allt breytt

Vorið kom og við blöstu rústir. Við börnin lékum okkur í þeim. Steypuklumpar og vírnet. Stundum fundum við muni sem voru heilir. Myndaalbúm, leikföng, fatnað. Svo komu gröfurnar og ummerki þessara húsa hreinsuð burt. Nýtt gras. Nýjar rætur. Lífið heldur áfram. Einhvern veginn.

Foreldrar mínir voru 25 og 30 ára. Ungt fólk með tvö börn sex og eins árs. Að upplifa áfall og sorg sem ekki er hægt að lýsa. Sár sem aldrei gróa. Sett í þá stöðu að ræða dauðann við barn sem ekki skilur. Ekki tími til að stoppa heiminn. Hvernig heldur maður áfram?

Í dag er ég 36 ára, þriggja barna móðir. Yngri sonur minn er sex ára. Í fyrsta bekk. Eins og ég var þessa örlagaríku nótt. Þegar ég horfði á hann skil ég betur hversu lítil ég var. Þegar ég set mig í spor foreldra minna skil ég líka betur hversu ung þau voru. Allt breyttist þessa nótt. Ég er líklega síðasta kynslóðin sem mun eiga minningar frá þessum atburðum. Þó þær séu barnalegar. En við erum líka kynslóðin sem ólst upp í kjölfar snjóflóðs. Sex ára börn eiga ekki að þurfa að mæta dauðanum eða skilja hann. Það hefur ákveðnar afleiðingar. Er ekki annars eðlilegt að álykta alltaf sem svo að manneskjan sem ekki svarar í símann hljóti að vera dáin? Og vera alltaf tilbúin að ímynda sér það versta?

Samstaða í heimi sundrungar

Með vindinum kemur kvíðinn orti Bubbi Morthens. Þannig er það hjá okkur sem ólumst upp við rætur fjalls sem hefur hrifsað svo margt í burtu. Við Íslendingar búum í áfallasamfélagi. Við kunnum að vera í brekku. Stuttum sprettum. Þegar á reynir stöndum við saman.

„Sorg þeirra er okkar sorg,“ sagði frú Vigdís.

Kannski er það þess vegna sem ég trúi svo sterkt á samkennd, að hún sé ekki aðeins viðbragð, heldur lífskraftur þjóðarinnar. Og fyrir það er ég þakklát.

Gleymum því ekki í heimi sundrungar og höldum áfram að standa saman.

Það er farsælasta leiðin áfram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja

Björn Jón skrifar: Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríki Norður Kóreu

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríki Norður Kóreu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Snjallsíminn og frelsi barnanna okkar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Snjallsíminn og frelsi barnanna okkar