

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hjá Bliku segir úrkomuákefðina sem nú gengur yfir óvenjulega. Staðan verði slæm á Reykjanesbraut.
„Þetta er að teiknast upp á verri veg á Suðurnesjum! Og snjódýptin er líka þegar óvenjuleg í Reykjavík svo snemma vetrar,“ segir Einar í færslu á samfélagsmiðlum.
Samkvæmt nýjasta spákorti frá Veðurstofunni sem gildi til 16:00 verði mikili úrkomuákefð á Suðurnesjum og þar með á Reykjanesbraut.
„Verst er að þetta verðu mjög líklega áfram snjókoma í hita nærri 0°C. Á Reykjanesbrautinni verður skyggnið frá því upp úr hádegi og fram á kvöld samkvæmt þessu varla meira en 100 -200 metrar,“ segir Einar. „Og þó hægur vindur. Nær eingöngu vegna þéttra ofandrífunnar.“
Spárit Keflavíkurflugvallar geri ráð fyrir 50 millimetra úrkomu frá 12:00 til miðnættis. Annað spákort sýni 50 til 75 millimetra uppsafnaða úrkomu frá 9:00 til miðnættis.
„Þetta þykir mikil ákefð á þessum stað og óvenjuleg ! Ekki síst þegar horft er til þess að þetta er ekki rigning samfara hærri hita en nú,“ segir Einar. „Í framhjáhlaupi má geta þess að mæling snjódýptar nú kl. 9 í morgun við Veðurstofuna sýndi 27 sm! Líklega er það mesta mælda snjódýpt í Reykjavík í október!!“