fbpx
Laugardagur 13.desember 2025
Fréttir

Standa undir 40% ráðstöfunartekna sveitarfélagsins en fá ekki að hafa rödd – „Og hvað fáum við fyrir fasteignagjöldin okkar?“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 26. október 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Átök eiga sér nú stað milli sveitarstjórnar og sumarbústaðaeigenda í Grímsnes- og Grafningshreppi. Málið á rætur að rekja til komandi sveitarstjórnarkosninga en meirihluti sveitarstjórnar fékk veður af því að frístundahúsaeigendur hefðu verið hvattir til að færa lögheimili sitt í hreppinn til að öðlast þar kosningarétt. Á bak við þessar deilur eru svo áralöng átök sveitarstjórnarinnar við fólk sem hefur heilsársbúsetu í sumarhúsum.

Leikur að lýðræði

Fulltrúar meirihlutans, Ása Valdís Árnadóttir oddviti, Björn Kristinn Pálmarsson varaoddviti og Smári Bergmann Kolbeinsson rituðu grein fyrr í vikunni þar sem þau vöruðu við háttseminni. Með þessu útspili séu frístundahúsaeigendur að leika sér að lýðræðinu. Ef fólk fái að kjósa sem ekki hafi raunverulega búsetu eða ábyrgð í samfélaginu þá sé lýðræðislegur grundvöllur kosninga orðinn óljós.

„Grundvöllur allra sveitarfélaga endurspeglast í virku íbúalýðræði. Þau verða að geta tekið ákvarðanir um skipulag, þjónustu og þróun byggðar á traustum upplýsingum og raunverulegri búsetu íbúa. Þegar kerfið er notað með þeim hætti að fólk er hvatt til að „skrá sig inn til að kjósa og út aftur þegar búið er að kjósa“, þá er hætta á að við glötum trausti á ferlunum sem halda samfélaginu saman.“

Vilja hafa rödd

Sumarbústaðareigandinn Bergdís Linda Kjartansdóttir hefur svarað sveitarstjórninni með sinni eigin grein. Þar bendir hún á að sumarhúsafólk hafi ekki tekið hreppinn yfir heldur hafi bændur selt þeim land og hreppurinn skipulagt lóðirnar. Fyrir þetta fengu bændur greitt og hreppurinn hefur innheimt alls konar gjöld af sumarhúsafólkinu.

„Samt koma þessir sömu bændur, sem stýra hreppnum, fram við okkur eins og aðskotadýr og afætur. „Við“ og „þið“ er viðhorfið. „Við“ sem búum í hreppnum, eigum og ráðum, og „þið“ sem standið undir kostnaðinum.

Bergdís segir sumarhúsaeigendur orðna þreytta á þessu viðhorfi. Þeir séu hluti af samfélaginu. Þetta séu aðilar sem hafa hagsmuni af ákvörðunum sveitarstjórnar og ættu því að hafa eitthvað um þær að segja.

„Helst viljum við fá umboðsmann sumarhúsaeigenda inn í sveitarstjórn.“

Hún tekur dæmi um það sem hún kallar mismunun og fjandsamlegt viðmót gagnvart sumarhúsaeigendum.

„Fyrir nokkrum árum var ákveðið að hafa ríflega þrefalt ódýrara í sund fyrir þá sem ættu lögheimili í hreppnum. Sú mismunum var kærð árið 2023 og í framhaldinu dregin til baka. Ljósleiðari var lagður heim á öll lögbýli í hreppnum, ábúendum að kostnaðarlausu, en sumarhúsaeigendur gátu fengið að tengjast ljósleiðaranum fyrir háar fjárhæðir. Nýjasta dæmið um mismunun fasteignaeigenda í hreppnum er tíðni á losun rotþróa. Rotþrær hafa árum saman verið losaðar á þriggja ára fresti, en skv. leiðbeiningum bæði frá Umhverfis- og orkustofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands ber að tæma rotþrær við sumarhús á tveggja til þriggja ára fresti, oftar ef notkunin er allt árið. Sveitarstjórnin ákvað að breyta þessu og tæma rotþrær hjá sumarhúsum hér eftir á fimm ára fresti. Rotþrær á lögbýlum eru hins vegar áfram tæmdar á þriggja ára fresti. Um leið og þessi ákvörðun var tekin var ákveðið að hækka gjaldið fyrir losun við sumarhús um 50%. Fyrir marga sumarhúsaeigendur þýðir þetta aukalosun fyrir 150 þús. kr. á milli skipulagðra losana.“

Það er fleira sem sumarhúsaeigendur eru ósáttir með. Bergdís segir þau orðin þreytt á að fá ekki þá þjónustu sem þau borga fyrir. Sveitarfélagið rukki ein hæstu fasteignagjöld á landinu og noti til að niðurgreiða næstlægstu útsvarsprósentu á landinu. Sumarhúsaeigendur standi undir 40% af ráðstöfunartekjum hreppsins með fasteignagjöldum sínum.

„Og hvað fáum við fyrir fasteignagjöldin okkar,“ spyr Bergdís og bendir meðal annars á slæmt aðgengi að sorplosun og lélegt skipulag og viðhald hjóla- og göngustíga.

Óheiðarlegt að þagga niður umræðu með villandi upplýsingum

Ragna Ívarsdóttir, Guðrún Margrét Njálsdóttir og Þröstur Sverrisson, rituðu einnig grein, fyrir hönd félagsins Búsetufrelsis – samtök fólks með fasta búsetu í heilsárshúsi í Grímsnes- og Grafningshreppi- , til að svara sveitarstjórninni. Þar benda þau á að það sé ekki ólöglegt að búa í frístundahúsi. Sveitarstjórn láti að því liggja að þarna séu á ferðinni sumarbústaðaeigendur en taki ekki tillit til þess að þetta séu aðilar sem eru búsettir í húsum sínum.

„Það er kaldhæðnislegt að greinarhöfundar skuli tala um „leik að lýðræðinu“ þegar þeir sjálfir reyna að draga úr þátttöku fólks í kosningum með röngum upplýsingum og rangfærslum á lögum. Lýðræði verður brothætt, ekki þegar fólk vill taka þátt – heldur þegar fulltrúar valdsins, fyrrnefndir greinarhöfundar reyna að velja hverjir fá að taka þátt í samfélaginu. Það er ekki óheiðarlegt að vilja hafa rödd í sveitarfélaginu sem maður býr í. Það sem er óheiðarlegt, er að reyna að þagga niður í þeirri rödd með villandi upplýsingum. Við sem búum í Grímsnes- og Grafningshreppi – hvort sem er í frístundahúsi með ótilgreint lögheimili eða íbúðarhúsi – erum íbúar þessa sveitarfélags í augum laga og samkvæmt úrskurði æðra stjórnvalds. Við eigum rétt til að kjósa, taka þátt og njóta virðingar – rétt eins og allir aðrir.“

Búsetufrelsi gagnrýndi einnig sveitarstjórnina í september á þessu ári fyrir að berjast fyrir því að fá lögheimilisskráningu sumarhúsaeigenda breytt svo hægt sé að afskrá það úr sveitarfélaginu.

Sumarhús í hreppnum eru um 3.300 talsins en fjöldi íbúa í sveitarfélaginu í september á síðata ári var 602.

Sjá einnig:Guðrún lét drauminn rætast og flutti alfarið í bústaðinn eftir starfslok – Upplifir sig sem annars flokks vegna framgöngu sveitarstjórnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Vegfarandi stórslasaðist eftir að ekið var á hann og hund hans á Langholtsvegi – Ökumaðurinn sýknaður

Vegfarandi stórslasaðist eftir að ekið var á hann og hund hans á Langholtsvegi – Ökumaðurinn sýknaður
Fréttir
Í gær

Fékk hroll þegar hún las bréf MAST um mál hundsins Úffa – „Stofnanir verða að sýna mannúð“

Fékk hroll þegar hún las bréf MAST um mál hundsins Úffa – „Stofnanir verða að sýna mannúð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur mildaði verulega dóm yfir ungum stórsmyglara

Landsréttur mildaði verulega dóm yfir ungum stórsmyglara
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mohamad Kourani kominn á almennan gang á Hólmsheiði innan um tvo Alzheimer-sjúklinga

Mohamad Kourani kominn á almennan gang á Hólmsheiði innan um tvo Alzheimer-sjúklinga