Ný heimsmynd blasir við. Bandaríkin hafa snúið við blaðinu.
Þau hafa horfið frá hugmyndafræði frjálsra viðskipta og hafið tollastríð gegn umheiminum.
Að baki þessari kúvendingu býr sú hugsun að sterkasta efnahags- og herveldi heims geti nýtt sér þá yfirburði til þess færa til sín efnahagsstarfsemi frá ríkjum í veikari stöðu, stórum jafnt sem smáum.
Hugmyndafræðin um samkeppni stórra og smárra á jafnréttisgrundvelli með alþjóðlega viðurkenndum leikreglum er með öðrum orðum úr sögunni.
Markmiðið er að lögmál frumskógarins taki við.
Tollarnir eru misháir eftir því hvað einstök ríki eru tilbúin til að borga fyrir lækkun þeirra.
Þessi nýja heimsmynd snýr að Íslandi með þrenns konar hætti.
Í fyrsta lagi hafa Bandaríkin nú þegar lagt ofurtolla á íslenskan útflutning. Enn sem komið er hefur það ekki haft afgerandi áhrif. Ástæðan eru tímabundnar undanþágur en aðallega hitt að innri markaður Evrópusambandsins er langsamlega mikilvægasta markaðssvæðið fyrir Ísland.
Í öðru lagi stafar íslenskum útflutningi hætta af viðbrögðum annarra ríkja og ríkjabandalaga, sem þurfa að verjast afleiðingum tollastríðs Bandaríkjanna. Mögulegur tollur Evrópusambandsins á kísiljárn, sem framleitt er í ríkjum utan tollabandalagsins, er dæmi um þannig varnarviðbrögð, sem við megum búast við úr öllum áttum þegar fram í sækir.
Í þriðja lagi stefna Bandaríkin að því að splundra bandalögum ríkja um frjáls viðskipti eins og innri markaði Evrópusambandsins.
Aðild Íslands að þeim markaði hefur verið undirstaða efnahagslegrar velgengni landsins í þrjá áratugi. Takist Bandaríkjunum þetta mun það snúa allri efnahagsþróun á Íslandi á hvolf.
Fæst ríki og ríkjabandalög hafa enn fundið andsvar við þessari nýju viðskiptaheimsmynd. Ísland er þar í sama báti.
Ein leið er að tala bara fyrir því að Ísland eigi allt gott skilið. Segja má að ríkisstjórnin sé á þeirri vegferð. Flest ríki reyna þetta að einhverju marki.
Klípan er hins vegar sú að nýju leikreglurnar, sem Bandaríkin hafa sett, byggja á því að aflsmunir ráði för.
Minnstu ríkin eins og Ísland njóta þá ekki lengur alþjóðlegra leikreglna og bara sum þeirra hafa skjól af svæðisbundnu tollasamstarfi.
Önnur leið er að kaupa tollalækkanir. Hún getur reynst afar dýr og reyndar flókin líka þegar til þess kemur að kaupa þarf ívilnanir austur og vestur. Ýmis ríki eru samt á þessari vegferð.
Ríkisstjórnin hefur ekki opnað á þessa leið enn sem komið er. Stjórnarandstaðan hefur heldur ekki nefnt hana opinberlega.
Samtök iðnaðarins hafa aftur á móti nefnt möguleika á orkusölu án þess að tala um verð. En allir vita að orkan verður ekki skiptimynt í þessu samhengi nema hún verði sett á útsölu. Við gætum líka þurft að fórna lífshagsmunum landsins í loftslagsmálum þar sem fiskistofnarnir eru í húfi.
Þumalputtareglan er sú að þetta er þeim mun hættulegri leið eftir því sem ríki eru minni.
Þriðja leiðin er aðild Íslands að tollabandalagi Evrópusambandsins.
Með því móti myndi Ísland tryggja alfarið tollfrjáls viðskipti á stærsta markaðssvæði heims.
Annar ávinningur væri sá að Ísland myndi njóta styrkleika stærðarinnar í tollaviðræðum Evrópusambandsins við Bandaríkin og önnur lönd.
Þeir sem í alvöru vilja verja íslenska hagsmuni ættu að hvetja til þess að könnun á þessum kosti verði sett í tafarlausan forgang. Hik gæti orðið dýrkeypt.