Guðni lýsir þar miklum áhyggjum af stöðu Framsóknarflokksins og segir hann standa á sínum versta stað í 109 ára sögu flokksins.
„Aldrei í 109 ára gamalli sögu sinni hefur Framsóknarflokkurinn staðið jafn vopnlaus og illa á sig kominn,“ skrifar hann og bætir við að flokkurinn hafi þó gengið í gegnum marga eldskírnina – en alltaf lifað af.
„Stórir menn og stórir sigrar hafa borið flokkinn uppi,“ segir Guðni sem bætir við að vandinn hafi stundum falist í því að forystan hefur ekki þekkt vitjunartíma sinn.“
Guðni bendir á að í gegnum tíðina hafi leiðtogar Framsóknar sýnt auðmýkt þegar illa gekk. Jónas Jónsson frá Hriflu hafi verið felldur af grasrót flokksins, Ólafur Jóhannesson ákveðið að víkja eftir kosningatap 1978, og Halldór Ásgrímsson hafi stigið til hliðar árið 2006 að ráði vina sinna. Allir þessir menn hafi viðurkennt að flokkurinn væri merkilegri en þeir sjálfir.
Sjálfur hafi hann síðan ákveðið að víkja árið 2008 eftir mikla gagnrýni og klofning innan flokksins vegna afstöðu til Evrópusambandsins.
Hann segir að Framsóknarflokkurinn hafi gengið í gegnum hæðir og lægðir á undanförnum árum og rifjar upp að flokkurinn hafi unnið einn sinn stærsta sigur árið 2013 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson leiddu flokkinn til 25 prósenta fylgis og mynduðu ríkisstjórn sem „bjargaði Íslandi frá gjaldþroti“.
Guðni heldur svo áfram að rifja upp söguna og bendir á Panamaskjölin og stofnun Miðflokksins. Þrátt fyrir stóra sigra 2021 og 2022 hafi fylgið hrunið í alþingiskosningunum 2024.
„Formaður flokksins rétt skreið inn á Alþingi í kjördæmi sínu,“ segir Guðni og bendir á að Framsókn hafi aðeins fengið 7,8 prósent atkvæða og fimm þingmenn.
Guðni vísar í orð Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings sem sagði að feigðina hafi borið að þegar Katrín Jakobsdóttir hætti, Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra og Sigurður Ingi tók við fjármálaráðuneytinu án þess að ná fram breytingum. „Mörgum framsóknarmönnum finnst forystan ráðalaus og fyrir vikið langt frá því að vera samhent,“ segir Guðni. „Mörgum finnst miklu frekar að flokkurinn hafi yfirgefið þá en þeir flokkinn.“
Hann bendir á að Sigurður Ingi sé nú einn eftir af formönnum fyrri ríkisstjórnarflokka og beri á herðum sér „öll syndaregistrin“. Þá hafi lykilmenn eins og Ásmundur Einar Daðason og Willum Þór Þórsson hætt í pólitík og veikti það stöðuna enn frekar.
„Helsærður flokkur fer ekki í átök um nýjan formann,“ skrifar Guðni, „en hann þarf að þekkja sinn vitjunartíma.“ Að hans mati sé staða Sigurðar Inga mun verri en margra fyrrum formanna sem viku sjálfir eftir áföll í kosningum.
Guðni segir að ábyrgðin hvíli alltaf á formanninum þegar kjósendur hverfa á braut. „Þannig hverfa stjórnmálaleiðtogar á hverju ári um allan heim eftir vondar kosningar,“ skrifar hann og varar við því að flokkurinn sé nú á mörkum lífs og dauða í könnunum – með fylgi á bilinu fjögur til sex prósent.
Að lokum hvetur Guðni félaga sína til að horfast í augu við veruleikann, sýna samstöðu og endurvekja samvinnuhugsjónina sem Framsókn byggðist á.
„Þið fyrirgefið mér afskiptasemina, góðu samherjar í Framsókn, en ég get ekki orða bundist. Mér þykir jafn vænt um Framsóknarflokkinn og ungmennafélagshreyfinguna og þjóðkirkjuna mína. Guð blessi flokkinn okkar,“ segir Guðni að lokum.