fbpx
Fimmtudagur 09.október 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skortur á skilningi

Eyjan
Fimmtudaginn 9. október 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Formaður Samtaka atvinnulífsins segir stjórnvöld skorta skilning á fyrirtækjarekstri og að stefna þeirra sé atvinnulífinu skaðleg.“

Þannig lýsti RÚV boðskap Jóns Ólafs Halldórssonar á ársfundi SA fyrir réttri viku.

Bergmál

Ársfundarræða formannsins var eins og bergmál af auglýsingaherferð SFS fyrr á þessu ári. Þar gengu samtökin svo fram af flestum landsmönnum að trúverðugleiki þeirra fauk út í veður og vind.

Lærði enginn í Húsi atvinnulífsins af þeim mistökum?

Og af því að ég er um sumt sammála formanninum um skort á almennum skilningi á mikilvægi samkeppnishæfni vekur þessi bergmálsræða hans aðra spurningu:

Er hugsanlegt að skilningsskortinn megi kannski líka finna í Húsi atvinnulífsins?

Uppgerð

Lítum fyrst á veiðigjöldin, sem ársfundurinn gerði að aðalágreiningsefni við stjórnvöld. Formaður SA skilgreinir þau sem skatt. Sannarlega eru engin rök fyrir því að skattleggja sjávarútveginn meir en aðrar atvinnugreinar.

Veiðigjöldin eru hins vegar greiðsla fyrir einkarétt til veiða. Verðmæti einkaréttarins felst í því að ríkisvaldið meinar öðrum aðgang að auðlindinni. Það selur einkaréttinn alveg eins aðrir selja aðgang í bíó og hann sjálfur rukkaði fyrir olíuna, sem útgerðin keypti.

Trúlega veit formaðurinn þetta, en lætur sem hann geri það ekki til þess eins að geta endurómað auglýsingaherferð SFS. Það lýsir hins vegar ekki góðum skilningi út á við.

Gengið

Skoðum svo hátt gengi krónunnar, sem formaðurinn setti í samhengi við skilningsleysi stjórnvalda.

Fallast verður á það með honum að það veikir samkeppnisstöðuna. Vandinn er sá að krónan sveiflast meir en stærri gjaldmiðlar óháð því hversu skilningsríkt fólk situr við ríkisstjórnarborðið. Og stundum óháð því hvernig árar.

Formaðurinn er algjörlega á móti því að taka upp samkeppnishæfan gjaldmiðil eins og samtökin töluðu þó áður fyrir. En hvað vill hann þá?

Á að færa gengisskráninguna aftur til „skilningsríkrar“ ríkisstjórnar? Á „skilningsrík“ ríkisstjórn að lækka vexti til að lækka gengið? Á að afnema gjaldeyrishöftin á lífeyrissparnaðinn, sem heldur uppi verðgildi krónunnar og skekkir alla eignaverðmyndun? Á svo að snúa þessu á haus næst þegar krónan fellur?

Það lýsir ekki miklum skilningi að geta ekki rætt eðli vandans og úrræðin.

Tollastríðið

Þá óttaðist formaðurinn skilningsskort hjá stjórnvöldum vegna tollastríðsins.

Þar hrópaði hann bara eins og stjórnarandstaðan: Ríkisstjórnin verður að gæta íslenskra hagsmuna. Þó það nú væri. Úrlausnarefnið er hitt: Hvernig verður það best gert?

Ein leið er að Ísland glími eitt við mesta efnahagsveldi heims og síðan önnur ríki og bandalög, sem þurfa að bregðast við ofurtollastefnu þess.

Önnur leið er sú að gerast aðili að öflugasta tollabandalagi þeirra þjóða sem enn standa vörð um frjáls viðskipti og nýta þannig samtakamáttinn.

Þriðja leiðin er að hefja útsölu á orku í von um lægri tolla.

Það lýsir ekki miklum skilningi á eðli mestu ógnar, sem atvinnulífið hefur staðið andspænis í langan tíma, þegar formaður SA hefur efnislega ekkert annað til málanna að leggja en að vera á móti tollabandalagi frjálsra viðskipta.

Ójafn leikur

Útflutningsfyrirtæki með 40% þjóðarframleiðslunnar starfa í sama vaxtaumhverfi og samkeppnislöndin. Það eru litlu og meðalstóru fyrirtækin á innlendum markaði sem borga þrefalt hærri vexti.

Þessi ójafni leikur var ekki til umræðu á ársfundinum.

Kannski er það vegna skilningsskorts. En gæti líka stafað af innri togstreitu, sem forystan treystir sér ekki til að ræða við stjórnvöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Feimnismál

Óttar Guðmundsson skrifar: Feimnismál
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Lýðræði og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Lýðræði og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri
EyjanFastir pennar
05.09.2025

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla
EyjanFastir pennar
05.09.2025

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk