Rúnar Hroði Geirmundsson, einkaþjálfari og fyrrum Evrópu- og heimsmeistari í kraftlyftingum, hefur undanfarna mánuði æft af kappi fyrir keppni í járnkarli á næsta ári þar sem hann vonast til að safna 12-18 milljónum króna fyrir vökudeild Barnaspítala Hringsins.
Babb kom hins vegar í bátinn þegar Rúnar veiktist alvarlega á dögunum. Hann greinir frá reynslu sinni í færslu á Facebook en Rúnar hefur búið á Selfossi í eitt og hálft ár ásamt fjölskyldu sinni, ákvörðun sem hann lofar í hástert. Hann leitaði sér því hjálpar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og er himinlifandi með þjónustuna.
„Fyrir 8 dögum veikist ég alvarlega, og í takt við mig þá bið ég aldrei um hjálp, þar til Eyrún [kona Rúnars] dregur mig á asnaeyrum til læknis á fjórða degi, þar sem hún hringir um morguninn og fær tíma á hádegi, á fimmta degi segir hún stopp og fer með mig á bráðamóttökuna og hótar sjúkrabíl. Ég er síðan lagður inn í hvelli og fæ allt sem ég þarf, á öllum stundum, ég bíð ekkert, æðaleggur og verkjalyf, CT skanni strax og ómun líka, það er öllu til tjaldað. Erfiðlega gekk að finna svör og var á endanum tekinn af öllum mat og fékk bara næringu, vatn og sykur í æð. Mér er haldið í þrjá daga í innlögn í einangrun í nýju flottu herbergi,“ skrifar Rúnar.
Hann dásamar ennfremur læknana og hjúkrunarfræðinganna sem hlúðu að honum og sagði sig ekki hafa skort neitt á meðan öllu stóð. Veikindin, sem enn er ekki vitað hvers eðlis eru, eru alvarleg og hann mun glíma við það í talsverðan tíma að ná fyrri heilsu.