Það er grár haustdagur í september og ég pósta á Bluesky (þ.e. Twitter fyrir góða fólkið):
„Ég sit hérna í haustlægðinni og bóka vikuferð til Kanarí eins og allir aðrir á þessari eyju. Ps. Play er með 30 prósent afslátt af flugi ATM. Ekki samstarf, bara vinaleg PSA og samhygð í óveðrinu.“
Fjórum dögum seinna sendir eiginmaður minn eftirfarandi skilaboð:
„Jæja góðar fréttir fyrir hlutabréfin þín
Ekki eins góðar fyrir mig
Ég var á geitinu og horfði á flugvélina
Þegar fréttirnar bárust“
Ég hef legið undir sæng með ærandi mígrenihöfuðverk og misst af fréttum morgunsins. Er í skjáhvíld en lít á símann um hádegi.
„Guð“
Mígrenið lætur ekki undan þrátt fyrir lyf. Fyrirbyggjandi meðferð hefst 1. október.
Ég sendi eftirfarandi póst á þjónustuver Landsbankans:
„Góðan dag,
Ég keypti flug fyrir fjögurra manna fjölskyldu með Play og reyndi að fara í gegnum ferli á endurkröfuvef og senda þar öll gögn í gegnum staðlað kerfi. Ég fæ ítrekað upp villu.
Ég sendi skjáskot af villunni í viðhengi ásamt öllum gögnum sem varða málið.“
Pósta á Bluesky:
„Sit hérna í haustblíðunni og skila gögnum á endurkröfudeild bankans vegna flugfargjalda með Play á meðan maðurinn minn er fastur á flugvelli í Amsterdam. Annars hress.“
Sendi skilaboð til vinkonu í hverfinu:
„I hear helicopters, I wonder if a tourist friendly eruption is going to save the economy now. In other news, the Saudis just bought EA and The Sims franchise for 55 billion USD. Also I got this fucking migraine.“
Morguninn eftir fæ ég svar frá Landsbankanum:
„Góðan dag,
Þú gætir þurft að breyta nöfnum á skjölunum þínum þar sem endurkröfuvefurinn getur ekki tekið á móti skjölum sem innihalda tákn eins og hornklofa, pílur eða +/-.
Vinsamlegast athugaðu þetta og reyndu aftur að sækja um endurkröfu.“
Sendi til baka til Landsbankans:
„Sæl,
Ég breytti öllum nöfnum áður en ég sendi inn í kerfið og hafði hvorki séríslenska stafi né nokkuð annað. Ég fæ samt bilunarmeldingu.“
Daginn eftir fæ ég svar frá Landsbankanum:
„Góðan daginn,
Þar sem þú gætir hafa lent í álagspunkti í kerfinu og umsókn þín er að stöðvast þegar þú sendir hana.
Spurning um að búa til algjörlega nýja umsókn og fara varlega yfir allt, passa að skjöl séu ekki með séríslenskum stöfum.
Ef þú ert enn í vandræðum með umsókn þá væri næsta skref að fara í útibú til að fá aðstoð.“
Ég kem heim frá heimilislækninum og rita í mígrenidagbók:
„Vopnuð nýjum lyfjaskammti sem á loksins að girða fyrir mígrenið. Velti fyrir mér hvort að það sé fleira í þessu lífi sem mætti þiggja fyrirbyggjandi meðferð í stað þess að vera stöðugt í viðbragði.“