Í Lögbirtingablaðinu í dag er birt tilkynning um stofnun einkahlutafélagsins Bryggjuhúsið en framkvæmdastjórn þess annast Helgi Hjörvar fyrrverandi borgarfulltrúi og alþingismaður. Hann situr jafnframt í stjórn félagsins en móðir hans í varastjórn. Formlegur stofnandi félagsins er þó annað einkahlutafélag, A, en það er í eigu Helga og eiginkonu hans Þórhildar Elínar Elínardóttur. Bæði félögin annast rekstur fasteigna og lánastarfsemi.
Helgi var borgarfulltrúi R-listans í Reykjavík frá 1998-2003 en hluta þess tíma var hann forseti borgarstjórnar. Hann hætti í borgarstjórn þegar hann var kjörinn á þing fyrir Samfylkinguna 2003. Helgi sat á þingi þar til hann missti þingsætið í alþingiskosningunum 2016 en fyrr það sama ár tapaði hann í formannskjöri í Samfylkingunni. Hætti hann í kjölfarið afskiptum af stjórnmálum og virðist síðan þá helst hafa haft þennan rekstur sinn fyrir stafni en A ehf. var stofnað 2017.
Rekstur A ehf. virðist ekki vera mjög umfangsmikill. Nýjasti ársreikningurinn sem félagið hefur skilað er fyrir árið 2023. Þar er virði fasteigna félagsins skráð 58,2 milljónir króna og rekstrartekjur þess voru 5 milljónir króna en félagið var rekið með 1,5 milljóna króna tapi. Auk fasteigna átti félagið árið 2023 16 milljóna króna hlut í öðrum félögum en skuldir þess voru svipað háar og virði eignanna.