Vinnustaðadeilur í grunnskóla á Reykjanesi voru teknar fyrir í dómi Héraðsdóms Reykjaness á dögunum í meiðyrðamáli.
Umdeildu ummælin féllu í greinargerð sem stefnda lét falla í greinargerð sinni til Reykjanesbæjar um meint einelti stefnanda í sinn garð.
Ummælin voru þó nokkur og gáfu til að stefnandi væri vanhæf í starfi, drykkfelld og jafnvel hættuleg. Þau ummæli sem dæmd voru ómerk voru eftirfarandi:
„Í óvissuferðinni var [x] frekar drukkin.“
„Daginn eftir skammaði fararstjóri [x] og nokkra aðra vegna þess að það var svo mikil áfengislykt að það var ekki hægt að fara með þær í skólaheimsókn“
„Hún er orðin það örugg með sjálfa sig og stöðuna sína innan skólans að hún þorir að mæta lyktandi af áfengi í vinnuna.“
„Óþægileg hótun hennar um að ef hún yrði deildarstjóri þá yrði það ekki gott fyrir mig né [C]. Á þessum tímapunkti í framhaldi af kvörtun minni til skólastjóra var ég farin að hafa áhyggjur af öryggi mínu og fjölskyldu minnar. Sérstaklega vegna þess að talað hefur verið um að hún hafi tengsl við ákveðna einstaklinga sem gætu verið ógnandi.“
Málið átti sér nokkurn aðdraganda en málaðilar höfðu um tíma starfað saman við skólann og ljóst að mikið álag fyldi starfinu.
Stefnda lagði fram kvörtun í maí 2023 og sakaði stefnanda um einelti. Þar féllu umþrættu ummælin. Reykjanesbær fékk sálfræðing til að vinna úttekt vegna kvörtunarinnar og komst hann að þeirri niðurstöðu að kvörtun stefndu félli ekki undir skilgreiningu á einelti. Skólastjórnendum var þó í framhaldinu falið að greina hvaða lærdóm mætti draga af málinu og bregðast við með viðeigandi hætti.
Í janúar 2024 barst Reykjanesbæ önnur kvörtun, að þessu sinni frá stefnanda sem þá sakaði stefndu um einelti. Líf & Sál var fengin til að vinna skýrslu um málið og komst að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi ítrekað farið yfir mörk í kvörtun sinni árinu áður. Þar með hafi stefnda beitt stefnanda einelti.
Stefnandi sendi stefndu þá bréf í nóvember 2024 og krafðist afsökunarbeiðni og miskabóta. Skólastjórafélag Íslands varaði fyrir hönd stefndu og hafnaði kröfunni. Fram hafi komið í úttekt Líf & Sál að báðir aðilar hafi unnið við aðstæður þar sem stórauknar líkur væru á erfiðum samskiptum, vanlíðan þeirra beggja og tortryggni á báða bóga. Beinlínis komi fram í skýrslunni að stjórnendur hafi brugðist báðum, og það sé kjarni málsins.
Málið fór þá fyrir dóm. Stefnandi taldi ummæli stefndu fela í sér grófar ærumeiðingar og hafa verið höfði uppi af ásetningi. Ummælin væru til þess fallin að valda álitshnekki og skaða starfsheiður auk þess að vega gróflega að æru hennar og persónu.
Stefnandi tók fram að ásakanir í greinargerð stefndu hafi leið út og verið umræðuefni meðal starfsmanna skólans. Stefnandi hafi þurft að vera fjarverandi úr vinnu mánuðum saman og í raun meira og minna frá því að henni var gert að fara í leyfi vegna ásakana stefndu. Nú hafi stefnandi þurft að leita sér ýmiss konar aðstoðar og ráðgjafar vegna málsins sem hafi tekið mikið á hana. Meðal annars hafi hún verið greind með áfallastreituröskun og kvíða og verið í endurhæfingu hjá VIRK.
Stefnda taldi að stefnandi hafi ekki sannað að umstefndu ummælin kæmu frá henni. Því ætti að sýkna vegna aðildarskorts. Eins hafnaði hún því að ummælin væru ærumeiðandi, þó að þau hafi kannski verið stefnanda að móti skapi. Ummælin feli í sér gildisdóma en ekki staðhæfingar um staðreyndir. Eins hljóti stefnda að njóta rýmkaðs tjáningarfrelsis til að ræða hluti sem hún hafi upplifað af eigin raun.
Ummælin hafi svo ekki verið birt opinberlega og ekkert sanni meinta dreifingu þeirra.
Dómari fór yfir öll ummælin sem voru tilgreind í kæru og í sumum tilvikum taldi hann að um gildisdóma væri að ræða. Hvað varðar þau ummæli sem vitnað er til hér að ofan væri staðan þó önnur. Þar væri um að ræða neikvæð hughrif um persónu stefnanda og fengju ummælin enga stoð í gögnum málsins.
Við mat á miskabótum taldi dómari rétt að hafa í huga að ummælin birtust í úttekt sem varð gerð að tilstuðlan Reykjanesbæjar með lögmætan tilgang. Ekkert liggi fyrir um að ummælunum hafi verið dreift eða þau birt af hálfu stefndu. Þar með taldi dómarinn ósannað að þær afleiðingar sem málið hafi haft á stefnanda mætti rekja til háttsemi sem stefnda beri ábyrgð á. Því var stefnda sýknuð af miskabótakröfu en gert að greiða stefnanda 1.240.000 kr. í málskostnað.