Greint er frá því í fjölmiðlum vestanhafs að lögreglu hafi tekist að leysa hrottalegt morð á fjórum táningsstúlkum í höfuðborg Texas, Austin, sem framið var árið 1991. Morðið hefur löngum verið kennt við að það var framið í búð sem seldi frosna jógúrt. Fjórir ungir menn voru upphaflega grunaðir um ódæðið og tveir þeirra sátu um tíma í fangelsi en morðinginn reyndist á endanum ekki vera neinn þeirra en hann mun ekki svara til saka
DV hefur áður sagt frá morðinu og hér verður því aðeins stiklað á stóru. Stúlkurnar voru á aldrinum 13-17 ára og hétu Amy Ayers, Eliza Thomas, Sarah Harbison og Jennifer Harbison en tvær þær síðastnefndu voru systur. Lík þeirra fundust í búðinni eftir að eldur, sem kveiktur var þar, hafði verið slökktur. Stúlkurnar höfðu allar verið skotnar í höfuðið og einhverjum þeirra nauðgað. Fjórir ungir menn voru grunaðir um ódæðið. Tveir þeirra voru á endanum sakfelldir en dómunum var snúið við eftir að þeir höfðu setið í fangelsi í tæpan áratug. Játningar þeirra höfðu verið þvingaðar fram og DNA sem fannst á einni stúlkunni var úr hvorugum þeirra en umrætt DNA-sýni var fyrst tæknilega mögulegt að greina árið 2009.
Nú hefur hins vegar loks tekist að finna úr hverjum þetta DNA er en um er að ræða mann að nafni Robert Eugene Brashers en hann var raðmorðingi og nauðgari. Brashers framdi að minnsta kosti þrjú morð á tíunda áratug síðustu aldar í Suður Karólínu og Missouri en talið er að hann hafi mun fleiri morð á samviskunni. Brashers tók eigið líf í byrjun árs 1999 í Missouri eftir að lögregla hafði króað hann af. Komið hefur einnig í ljós að skothylki sem fannst í ræsi nærri vettvangi morðsins í Austin er úr byssunni sem Brashers skaut sjálfan sig í höfuðið með.
Brashers mun því ekki svara til svaka fyrir þetta ódæði en það virðist ekki annað en að þetta 34 ára gamla morð hafi loksins verið leyst.
Lögreglan í Austin mun gera nánari grein fyrir þessum nýju vendingum á blaðamannafundi síðar í dag og þá kemur væntanlega í ljós hvort málið verði ekki formlega skráð sem upplýst.